Skoðun

Bragðgott kraftaverkameðal

Þórir Guðmundsson skrifar

Fyrir nokkrum dögum fór flugvél Alþjóða Rauða krossins frá Evrópu til Afríku með dýrmætan farm. Í vélinni voru 60 tonn af kraftaverkameðali – bætiefnaríku hnetusmjöri, sem ber vörumerkið Plumpy‘Nut.

Í 40 næringarstöðvum Rauða krossins í Sómalíu er verið að nota hnetusmjörið til að hjúkra alvarlega vannærðum börnum til heilbrigðis. Nú eru 5.500 börn í slíkum stöðvum. Daglega eru börn útskrifuð og ný koma inn. Verið er að fjölga þessum stöðvum til að bjarga fleiri börnum.

Plumpy‘Nut hnetusmjörið gegnir lykilhlutverki við að bjarga lífi alvarlegra vannærðra barna. Það tekur ekki nema tvær til fjórar vikur að hjúkra barni til heilbrigðis eftir að það kemur aðframkomið af hungri inn á næringarstöð Rauða krossins. Á þeim tíma byrjar barnið smám saman að borða hefðbundinn mat og braggast.

Sögu Plumpy‘Nut má rekja til þess að franski næringarfræðingurinn André Briend tók eftir krukku af Nutella hnetusmjöri á eldhúsborðinu, smyrju sem nýtur sívaxandi vinsælda meðal barna á Íslandi og um allan heim. Hann skoðaði innihaldslýsinguna og komst að því bætiefnin í smjörinu stemmdu við margt af því sem vannærð börn þurfa á að halda.

Hjálparsamtök um allan heim hafa á síðustu árum tekið Plumpy‘Nut fagnandi. Loksins er kominn fram matur sem auðvelt er að framleiða, flytja og dreifa. Ekki þarf að blanda smjörið drykkjarvatni, sem er víða af skornum skammti, og það þarf ekki einu sinni að elda Plumpy‘Nut, bara kreista það fram úr litlum poka. Það sem meira er – hnetusmjörið er bragðgott!

Yfirnæringarfræðingur Lækna án landamæra, Milton Tectonidis, líkir Plumpy‘Nut við pensilín, svo mikilvægt sé það sem meðal gegn alvarlegri vannæringu.

Rauði krossinn og fjölmörg önnur hjálparsamtök hafa því tekið Plumpy‘Nut í þjónustu sína. Þegar þetta er skrifað er verið að undirbúa sendingu á öðrum farmi frá Frakklandi til Sómalíu á vegum Alþjóða Rauða krossins.

Rauði kross Íslands hefur eyrnamerkt allt söfnunarfé vegna Sómalíu kaupum á Plumpy‘Nut. Fyrir 1.500 krónur sem dregnar eru af símreikningi þegar hringt er í 904-1500 má kaupa skammt af hnetusmjöri sem dugar til að hjúkra einu barni til lífs á næringarstöð Rauða krossins í Sómalíu.




Skoðun

Skoðun

Saman gegn ríkisofbeldi

Vilhjálmur Yngvi Hjálmarsson,Örlygur Steinar Arnaldsson,Sigurhjörtur Pálmason,Simon Valentin Hirt,Kristbjörg Arna E. Þorvaldsdóttir,Ari Logn,Margrét Rut Eddudóttir skrifar

Sjá meira


×