Skoðun

Bær í eigu þjóðar

Guðjón Ragnar Jónasson skrifar
jmnkhkjhn Kolbrún Elfa Sigurðardóttir menntaskólakennari
Í huga íslensku þjóðarinnar skipa Þingvellir ákveðinn sess enda staðurinn sögufrægur og vinsæll áningarstaður til margra ára. Margir eiga góðar minningar úr sunnudagsbíltúrum þegar haldið var á Þingvöll og oft og einatt komið við á Hótel Valhöll. Eftir bruna Valhallar hefur mikið verið rætt um framtíð Þingvallastaðar. Mörgum finnst sem tómarúm hafi skapast á staðnum í kjölfar brunans. Uppi hafa verið margs konar hugmyndir um uppbyggingu á Þingvallastað. Í þeim efnum sýnist sitt hverjum en við erum í hópi þeirra sem söknum þess að geta hvergi áð á staðnum. Góður kaffibolli er nefnilega órjúfanlegur þáttur velheppnaðrar Þingvallaferðar.

Á umliðnum misserum höfum við ásamt gönguklúbbnum okkar þrammað um Þingvelli og velt líkt og margir aðrir fyrir okkur framtíð svæðisins þar sem Valhöll stóð áður. Klúbbfélagar voru sammála um að ekki ætti að leggjast í neinar byggingaframkvæmdir þarna. Svæðið er kyrrsælt og heildarmynd þess ber að varðveita. Hins vegar vorum við samt á því að kaffinu þyrfti að gera betri skil. Þegar við ræddum málin komumst við að sameiginlegri niðurstöðu sem fól í sér samþættingu náttúruverndar og kaffidrykkju. Til þess að svo mætti verða vorum við sammála um að hvorki þyrfti að byggja neitt né breyta nokkru varðandi ásýnd staðarins.

Margir kunna að spyrja hvernig okkar ágæti gönguklúbbur komst að þessari niðurstöðu. Jú, þegar við sátum í kvöldroðanum í brekkunni fyrir ofan rústir Valhallar og horfðum til austurs urðum við fyrir hugljómun. Við sáum að á Þingvöllum er nefnilega til staðar nægjanlegt húsnæði fyrir kaffihús sem um leið gæti orðið vísir að safni og upplýsingamiðstöð. Húsið er upphaflega byggt 1930 og er 365 fermetrar að stærð og hefur fimm burstir.

Hér erum við að vísa í gamla Þingvallabæinn sem nú hýsir embættisbústað forsætisráðherra. Spurningin sem læddist að okkur í gönguklúbbnum var hvers vegna ríkisstjórnin gæfi ekki bara þjóðinni embættisbústaðinn. Við vorum sammála um að þar mætti koma fyrir snyrtilegu kaffihúsi með góðri salernisaðstöðu. Bærinn er að okkar mati fallegur og endurspeglar byggingargerð ákveðins tíma í þjóðarsögunni.

Ef gamli Þingvallabærinn fengi nýtt hlutverk mætti segja að ríkisstjórnin gæfi þjóðinni bústað sinn. Hér yrði um táknrænan gjörning að ræða enda er það okkar mat að engin þörf sé á að embætti forsætisráðherra fylgi sumarhús. Við teljum að sérstök fríðindi og íburður ráðamönnum til handa passi ekki við hið nýja Ísland sem ráðamenn boðuðu að afloknu efnahagshruni. Ef halda þarf veislur fyrir tigna erlenda gesti á vegum hins opinbera er það okkar mat að áfram megi nýta salarkynni Þingvallabæjarins. Gestum hins opinbera er alls ekkert of gott að stíga inn í salarkynni sem jafnframt eru samboðin alþýðu þessa lands.

Með því að gefa þjóðinni gamla Þingvallabæinn er hægt að nýta brunabæturnar sem fengust þegar Hótel Valhöll varð eldi að bráð til uppbyggingar á Þingvöllum. Bætur þessar eru samkvæmt okkar upplýsingum um 300 milljónir. Hugmyndafræði ríkisstjórnar sem kennir sig við félagshyggju smellpassar við tillögu okkar um að gefa þjóðinni gamla Þingvallabæinn. Tillagan sparar ekki bara peninga og stuðlar að verndun Þingvalla. Ef af yrði væri um táknrænan gjörning að ræða sem rímar vel við þau gildi sem núverandi forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, hefur staðið fyrir í gegnum árin. Með því að gefa þjóðinni embættisbústað sinn yrði hún öðrum ráðamönnum fyrirmynd. Stjórnmálamenn nútímans skulu hafa hugfast að eftir stóra efnahagshrunið eiga þeir þjóðinni gjöf að gjalda.




Skoðun

Sjá meira


×