Skoðun

Hraðbraut lengi lifi!

María Hjálmtýsdóttir skrifar
Góðan dag. Mig langar að byrja á því að kynna mig. Ég er ekki hægrisinnuð, hef aldrei kosið Sjálfstæðis- eða Framsóknarflokkinn og er mjög á móti einkavæðingu allra hluta. En það breytir ekki því að ég er hlynnt valkostum og almennum sveigjanleika.

Þetta bréf fjallar þó ekki um mig og mína heimssýn. Ofangreint er bara rétt til að fyrirbyggja ásakanir um kapítalismarembu ýmisskonar. Nema hvað. Þetta bréf fjallar um Menntaskólann Hraðbraut og lífið á bak við fyrirsagnirnar.

Nú hef ég bæði starfað við skólann en einnig í hinu opinbera menntakerfi og tel mig því hæfa til þess að hafa skoðun á skólanum og því starfi sem þar fer fram. Það er mín vissa og trú að það að loka skólanum vegna hvaða ástæðu sem er, séu mikil mistök. Þarna fer ekki aðeins fram faglegt starf góðra kennara, heldur er Hraðbraut lítið og litríkt samfélag þar sem nemendur blómstra og fá góðar undirstöður fyrir áframhaldandi nám. Í Hraðbraut þekkja kennarar alla með nafni og á milli starfsfólks skólans og nemenda sjálfra myndast samband sem er einstakt á þessu skólastigi. Nemendur eru fáir sem er gott vegna þess að nærri ógerlegt er að hverfa í fjöldann og fólk sem einhverra hluta vegna hefur helst úr lestinni í námi nær þarna upp þræðinum og klárar stúdentspróf með stæl. Í Hraðbraut læra nemendur einnig vinnuaga sem svo nýtist þeim í háskólanámi og þeir eignast vini sem fylgja þeim ævina á enda.

Menntaskólinn Hraðbraut er valkostur sem á fullan rétt á tilveru sinni. Burtséð frá stjórnarfarslegum vandamálum hverskonar þykir mér ekki réttlætanlegt að leyfa skólanum sjálfum og því ómetanlega starfi sem þar fer fram að deyja drottni sínum. Það væri óréttlátt gagnvart þeim hópi ungmenna sem á erindi í þennan skóla. Hann er alls ekki allra, en enginn skóli er það. Fyrir þá sem þetta kerfi hentar er möguleikinn á því námi sem til boða stendur í Menntaskólanum Hraðbraut ómissandi. Ekki aðeins fyrir þá sem liggur á að komast í gegnum þetta skólastig, heldur einnig þá sem hafa hvergi fundið sig í hinu „venjulega“ skólakerfi og nýta sér þetta frábæra tækifæri til að ljúka prófi sem þeir annars hefðu jafnvel aldrei gert. Ég er viss um að fjölmargir þeirra hundraða nemenda sem klárað hafa skólann og fjölskyldur þeirra séu sammála mér.

Með þessu bréfi er ég hvorki að auglýsa skólann né koma mér í mjúkinn hjá einum né neinum. Mig langar bara að vekja máls á því hversu slæmt það væri ef skólastarfið í Menntaskólanum Hraðbraut verður látið lognast út af vegna vandamála sem bitna þá á þeim sem síst skyldi, en það eru nemendur og kennarar skólans. Það hljóta að vera til leiðir til þess að bjarga þessu litla samfélagi, ég trúi ekki öðru.




Skoðun

Sjá meira


×