Skoðun

Djáknar!

Nína Björg Vilhelmsdóttir skrifar
Í kirkjunni starfar stór og ólíkur hópur einstaklinga. Þar eru bæði leikmenn og lærðir. Organistar, sjálfboðaliðar, djáknar, kirkjuverðir, prestar og ræstingafólk svo eitthvað sé nefnt. Verkefnin eru æði mörg og misjöfn. Sum hafa verið unnin í kirkjunni í langan tíma en önnur eru nýrri, líkt og staða djáknans.

Flestir djáknar á Íslandi starfa ýmist á stofnun eða í kirkjum landsins. Starf þeirra er kærleiksþjónusta, diakonia. Kærleiksþjónustan er eitt af kjarnaatriðum kristindómsins og byggir á helgihaldi kirkjunnar, helgihaldi sem mótast af orðum og verkum kærleiksþjónustunnar. Með réttu má því segja að kærleiksþjónustan sé framlengdur armur lofgjörðarinnar inn í hversdaginn. Kærleiksþjónustunni er oft skipt upp í tvennt til einföldunar, þ.e. líknarþjónusta og fræðsluþjónusta. Allt starf djáknans miðar að því að vera með einstaklingnum í hinu hversdaglega, því sem mætir viðkomandi á hverjum degi, gleði og sorg.

Margir djáknar starfa með börnum í kirkjunni. Það er mikil blessun að fá að fylgjast með þeim vexti sem víða hefur orðið í barnastarfi kirkjunnar og einnig í trúarþroska barnanna sem mörg hver hafa sótt starf í kirkjunni í yfir 10 ár. Biskup Íslands hefur lagt ríka áherslu á að hlúa vel að ungviði landsins og hann hefur jafnframt hvatt sóknarnefndir kirknanna að forðast það í lengstu lög að skera niður í barna- og æskulýðsstarfi.

Vegna orða biskups sem og þeirri staðreynd að starf djákna er mikilvægt í okkar ágæta samfélagi hryggir það mig að heyra af uppsögnum djákna og því að verið sé að leggja niður stöður djákna. Kærleiksþjónustan er einn af lykilþáttum kirkjunnar eins og kemur fram í yfirskrift Þjóðkirkjunnar; biðjandi, boðandi, þjónandi. Hlutverkin innan kirkjunnar eru ólík og æði misjöfn. Djáknar eru kallaðir til að sinna ákveðnum verkefnum, organistar öðrum og prestar enn öðrum. Það mikilvæga er að allir þekki sitt starfssvið og vinni saman að því sem skiptir mestu máli, að boða, biðja og þjóna.

Kærleiksþjónustan er mikilvæg í dag og djáknar eru kallaðir til að sinna henni. Ég tel að með því að leggja niður embætti djákna sem og með uppsögnum þeirra sé kirkjan að stíga óheillaskref, ekki síst fyrir þá sem nýta sér þjónustu djákna.




Skoðun

Sjá meira


×