Skoðun

Er ekki kominn tími á þessa karla?

Agnar Guðnason skrifar
Þessar umræður undanfarna daga og vikur um verð á innlendum búvörum eru mér algjörlega óskiljanlegar – eru til menn það einangraðir hér á Íslandi að þeir hafa ekki hugmynd um verðlag í öðrum löndum? Skýringin gæti verið sú að þeir hafa bara ekki kynnt sér verðlag á búvörum í öðrum löndum sl. 12 ár eða svo.

Ég get nefnt sem dæmi þegar formaður launþegasamtaka á Íslandi vill hvetja alla íslenska neytendur til að hætta að borða íslenskt dilkakjöt, af því að verðið mun hækka svo rosalega á næstu dögum, eða formaður Neytendasamtakanna heldur því fram að matvöruverð sé hærra hér á landi en í nokkru öðru landi. Ég get ómögulega séð að þessir menn geti haldið sínum embættum – hinir almennu félagsmenn í þessum samtökum verða að gera ráðstafanir til að losna við þessa menn sem eru svona rosalega illa staddir.

Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að hækka verð á dilkakjöti til bænda – þeir bera of lítið úr býtum fyrir sína vinnu. Þrátt fyrir að verð á dilkakjöti út úr verslun gæti hækkað um 10% eða svo þá geri ég ráð fyrir að verðlag á dilkakjöti yrði hliðstætt því sem það er hagstæðast í dag í Evrópu. Dilkakjötið ætti, hugsanlega, að vera dýrasta kjöt sem völ er á, fyrir utan sérstæðar kjötvörur eins og bjórkjöt af ungnautum í Japan og Englandi – síðan kjöt af ýmis konar villibráð sem er og verður eflaust dýrara.

Ég hef kannað verðlag á kjötvörum í nokkrum löndum á síðastliðnum tveim árum. Hæsta verð á dilkakjöti er í Svíþjóð enda borða Svíar ekki nema um 300 g á mann að meðaltali yfir árið – 1 kg af lambalundum kostaði á síðastliðnu ári sem svarar 5.500 íslenskum krónum. (Þetta var í kaupfélaginu í Gustavsberg). Annað kjöt var um 20 til 30% dýrara en gerðist hér á landi. Rétt er að geta þess að smjör var helmingi dýrara í Svíþjóð en hjá okkur en verð á ostum var aftur á móti mun lægra en hér gerist. Þá athugaði ég verð í tveim verslunum í London, lágvöruversluninni Tesco og í Sainsbury. Þar reyndist verð á öllum helstu kjöttegundum vera þó nokkuð hærra en gerist hjá okkur, þó ég miði við verð í Bónus eða Nóatúni. Rétt er að geta þess að verðlag á kjúklingum í Tesco var svipað og það gerðist í Bónus um líkt leyti.

Innflutt matvara er að vísu dýr hjá okkur miðað við önnur lönd, en þetta á ekki við um innlendar búvörur. Ég vona að íslenskir neytendur hafi vit á að nýta sér okkar ágætu búvörur. Ef vel ætti að gera við sauðfjárbændur þyrfti að hækka verð til þeirra um 20% en lækka kostnað við slátrun og annan milliliðakostnað.




Skoðun

Sjá meira


×