Skoðun

Umi fékk hjálp

Petrína Ásgeirsdóttir skrifar
Það er erfitt að gera sér í hugarlund þá þjáningu sem milljónir manna standa frammi fyrir á þurrkasvæðunum í Austur-Afríku. Vatnsskortur, uppskerubrestur, dauði búfénaðs, matarskortur og hækkað matvælaverð. Þúsundir fjölskyldna sem höfðu lítið handanna á milli í stríðshrjáðri Sómalíu og í bláfátækum héruðum Keníu og Eþíópíu hafa misst lifibrauð sitt og horfa upp á alvarlega vannæringu og jafnvel dauða barna sinna. Örvæntingin er mikil og fátt til ráða. Í Sómalíu þarf nú einn af hverjum þremur íbúum á neyðaraðstoð að halda. Flóttamannahjálp Sþ hefur lýst því yfir að engin leið sé að aðstoða þann gríðarlega fjölda flóttamanna sem nú streymir yfir landamærin frá Sómalíu til flóttamannabúða í Keníu.

Eina vonin er aðstoð alþjóðlegra hjálparsamtaka og stofnana. Barnaheill – Save the Children hafa starfað í Eþíópíu, Keníu og Sómalíu í 20 ár og hafa mikla reynslu af hjálparstarfi á svæðunum. Með aðstoð þeirra fá nú tugþúsundir barna og fjölskyldna aðstoð. Á komandi mánuðum stefnum við á að hjálpa 1,8 milljónum barna og fjölskyldum þeirra. Hjálpin felst í dreifingu matvæla, að veita fólki aðgang að hreinu vatni, hreinlætisaðstöðu og heilsugæslu og að meðhöndla vannærð börn og bæta næringarástand þeirra. Jafnframt aðstoðum við fjölskyldur við framfærslu og að koma undir sig fótum að nýju og veitum börnum vernd og aðgang að menntun. Einnig leggja samtökin áherslu á að gera fjölskyldum kleift að verjast áföllum í framtíðinni.

Umi, þriggja mánaða gömul, er ein þeirra sem fengu hjálp frá Barnaheillum – Save the Children. Amina móðir hennar kom með hana til einnar af næringarstöðvum samtakanna í Sómalíu eftir erfitt ferðalag. Umi, sem vó aðeins 1,7 kg, var alvarlega vannærð og með lungnabólgu. Hún fékk strax viðeigandi aðstoð og var komið undir læknishendur. Við vonum að hún lifi af.

Með þínu framlagi geta Barnaheill – Save the Children hjálpað mun fleiri börnum sem eru í svipaðri stöðu og Umi. Söfnunarsímar okkar eru 904 1900 (1.900 kr.) og 904 2900 (2.900 kr.). Hægt er að leggja frjáls framlög á reikning samtakanna 0327-26-001989, kt. 521089-1059.




Skoðun

Sjá meira


×