Skoðun

Efling lýðræðisins

Kristinn Már Ársælsson skrifar
Í lýðræðisríkjum er almenningur handhafi valdsins. Þrátt fyrir það hefur valdið þjappast saman á hendur fárra á sviði stjórnmálanna og efnahagslífsins. Við berum ábyrgð á því og þurfum að taka til hendinni, efla og dýpka lýðræðið. Okkur ber í raun skylda til þess.

Ýmislegt hefur verið reynt erlendis í þessum efnum með góðum árangri. Eftirfarandi eru þrjú dæmi sem eru fallin til þess að dýpka lýðræðið og Lýðræðisfélagið Alda hefur lagt fyrir Stjórnlagaráð.

1. Að tryggja beina aðkomu allra þjóðfélagshópa að ákvarðanatöku. Rannsóknir sýna að vald þjappast saman á hendur fárra innan stjórnmálaflokka. Þær sýna einnig að t.d. fólk með lágar tekjur og litla menntun kemst síður inn á þing eða í aðrar valdastöður. Aldan leggur til að hluti þingmanna verði valinn með slembivali úr þjóðskrá. Þannig megi tryggja að sjónarmið almennings og allra þjóðfélagshópa komist að, beint og milliliðalaust. Slembivalsfulltrúar eru líklegri til þess að endurspegla viðhorf heildarinnar en t.d. flokkakjörnir sem fylgja hugmyndafræði og baklandi.

Slembivalsfulltrúar eru líklegri til þess að leita umboðs og samstöðu um lausn fyrir heildarhag. Slembivalið tryggir aðkomu þeirra sem hingað til hafa ekki átt upp á pallborðið. Við upphaf lýðræðisins í Grikklandi hinu forna voru fulltrúar valdir með slembivali og nýleg dæmi t.d. frá Bresku-Kólumbíu hafa gefið góða raun.

2. Að tryggja lágmarksdreifingu valds: að ríkisvaldið sé þrískipt. Þingmenn og ráðherra þarf að kjósa sérstaklega af almenningi og dómara þurfa aðrir að skipa en þingmenn og ráðherrar eða fulltrúar þeirra.

Þingmenn eru nú þegar kjörnir af almenningi en löggjafarvaldið er mjög háð framkvæmdarvaldinu hérlendis.

Víðs vegar er framkvæmdarvaldið kjörið sérstaklega. Aldan telur rétt að allir ráðherrar séu kosnir beint af almenningi og að hver sem er geti boðið sig fram til ráðherraembættis. Til þess að einfalda kosninguna um hvert ráðherraembætti fyrir sig er lagt til að fram fari forval á framboðum til ráðherraembættis með þeim hætti að slembivalsnefnd almennings velji í opnu ferli fjóra frambjóðendur, tvo karla og tvær konur. Á kjörseðli myndi fólk velja á milli fjögurra fyrir hvert ráðuneyti fyrir sig. Þannig eru ráðherrarnir aðskildir frá löggjafarvaldinu.

3. Að ákvarðanir séu teknar í opnum og lýðræðislegum ferlum með aðkomu almennings. Í flokka-fulltrúalýðræði eru ákvarðanir teknar í krafti valds þar sem hugmyndafræðilega ólíkir hópar takast á. Stjórnmálin snúast um baráttu um völd. Við sjáum dæmi þessa í þinginu þar sem ekki fara fram samræður um leiðir að markmiðum heldur er reynt að koma höggi á andstæðinginn. Við þurfum að dreifa valdinu og koma á samræðum. Aldan hefur lagt til að í stjórnarskrá verði heimild til þess að ákvarðanavald sé fært í borgaraþing og lýðræðisleg ákvarðanatökuferli. Í slíkum ferlum eru opnir fundir og fulltrúar taka saman hugmyndir og tillögur á mörgum stigum. Í Porto Alegre í Brasilíu er fjárhagsáætlun borgarinnar unnin í þátttökuferli þar sem allir geta tekið þátt sem vilja og yfir 100.000 koma að vinnunni á hverju ári. Árlega er yfir 20 milljörðum króna varið í uppbyggingu borgarinnar. Þar hafa fjármunir færst frá ríkari svæðum til fátækari. Til þess að efla og dýpka lýðræðið þurfum við að færa valdið út til fólksins sem tekur ákvarðanir í sameiningu.




Skoðun

Sjá meira


×