Skoðun

Hið íslenska réttlæti 110%?

Frestur til að sækja um 110% skuldaaðlögun hjá bönkunum rann út nú um mánaðamótin. Verði ekkert frekar að gert í lánamálum heimilanna, munu fjármálastofnanir, í skjóli stjórnvalda, komast upp með að leiðrétta aðeins þann hluta skuldavandans sem að þeim snýr, að undanskilinni 20% vaxtaleiðréttingu Landsbankans sem þó gengur ekki nægilega langt að mati Hagsmunasamtaka heimilanna þótt slík almenn vaxtaendurgreiðsla sé vissulega skref í rétta átt.

Þorri þjóðarinnar situr eftir með sárt ennið horfandi upp á hrópandi óréttlætið sem í þessu felst. Venjulegt fólk með stökkbreytt lán sem nánast engar leiðréttingar fær þar sem hin sérstaka vaxtabót í gegnum vaxtabótakerfi ríkisins getur ekki talist annað en móðgun miðað við þá hækkun sem fólk hefur séð á lánum sínum.

Eins og Hagsmunasamtökin hafa ítrekað bent á nær 110% leiðin einungis til þess hluta lántaka sem er skuldsettastur m.v. veðsetningarhlutfall. Hún er því sértæk aðgerð en ekki almenn, en hún gæti náð til um 20 þúsund lánasamninga ef marka má tölur fjármálaráðuneytisins.

Almennar og réttlátar aðgerðir miðast við að lántakendur sitji allir við sama borð og fólki sé þar með ekki mismunað. Á milli hjóna getur 110% leiðin veitt allt að 30 milljóna króna leiðréttingu, á meðan þeir sem eru með minna veðsettar eignir fá enga leiðréttingu þrátt fyrir að hafa orðið fyrir sama forsendubrestinum, þ.e. hækkun höfuðstóls lána. Við misrétti og mismunun þessara bankavænu skuldaleiðréttinga verður ekki unað. Við vísitölutengingu lánasamninga verður heldur ekki unað og því hafa samtökin nú ákveðið að útbúa farveg fyrir þjóðina til að segja hug sinn með undirskriftasöfnun sem mun fara fram á heimilin.is.

Frá heimilum landsins séð felur 110% leiðin í sér mikla mismunun og misrétti, þar sem mætti segja að verið sé að umbuna þeim sem sitja uppi með yfirveðsettar eignir. Svokallaðar skuldaleiðréttingar eins bankans bæta að mati hagsmunasamtakanna lítið úr skák og eru í raun móðgun við almenna lántakendur bankans, eins og rakið er í blaðagrein eftir Jónínu Óskarsdóttur í Fréttablaðinu í vikunni. Þá er með öllu ólíðandi að hver bankastofnun virðist útfæra þessa svokölluðu 110% leið að eigin geðþótta, því ekki miða allir við fasteignamat ríkisins.

Að mati Hagsmunasamtaka heimilanna næst ekki friður og sátt um lánamál heimilanna fyrr en almenn leiðrétting verður gerð á stökkbreyttum lánum með einhvers konar útfærslu á flatri niðurfærslu sem miðar við stöðu þeirra 1. janúar 2008 og nær til allra. Allir urðu fyrir forsendubresti í lánasamningum, eitt skal því yfir alla ganga í leiðréttingum.




Skoðun

Sjá meira


×