Skoðun

Ummæli á afmæli

Ágúst Guðmundsson skrifar
Það er orðið æ ljósara að menn gera ekki myndir á Íslandi nema með styrk.“

Þetta var haft eftir mér í Fréttablaðinu í gær í tilefni afmælis míns. Fyrstu viðbrögð mín urðu: Hef ég þá ekki sagt neitt gáfulegra í allan þennan tíma? Er þetta dýrasta spekin sem hægt er að hafa eftir mér? Í gær vitnaði Fréttablaðið í Rousseau. Hans orð voru ólíkt meitlaðri.

Ekki man ég hvar eða hvenær ég lét þetta út úr mér, enda skiptir það ekki máli. Það gæti verið á miðjum níunda áratugnum, en þá var ég vissulega afar þakklátur fyrir þau tækifæri sem mér höfðu fallið í skaut og þann fjárhagslega stuðning sem kvikmyndagerðin fékk – frá þjóðinni. Ég er það í rauninni ennþá, með ákveðnum fyrirvara þó: fjármögnun kvikmynda hefur þróast á þann veg að greinin er langt frá því að vera einhver þurfalingur eða ómagi á þjóðinni. Það hefur reynst erfitt að sannfæra stjórnmálafólk um þessa staðreynd en satt er það engu að síður: það er þjóðhagslega hagkvæmt að styrkja íslenskar kvikmyndir.

Úrtölumenn hafa gjarnan sagt: Nú, úr því þetta stendur undir sér, þarf þá að veita í það opinberu fé? Enn einu sinni skal það útskýrt, að opinbera framlagið er lykillinn að frekari fjármögnun. Án þess verður ekki sótt í fjölþjóðlega sjóði. Án þess verður engin kvikmyndaleg útrás. Sem hefur skilað okkur milljónahundruðum á undanförnum árum, fyrir nú utan þá jákvæðu kynningu sem land og þjóð fær alveg ókeypis í kjölfarið. „Íslenskar kvikmyndir eru hin óbeina auglýsing sem gagnast betur en bein sölumennska,“ eins og ég orðaði það einhvern tíma.

Ég á fleiri svona fínar setningar: „Erfitt er að finna þá listgrein sem leggur jafnmikið til þjóðarbúsins og kvikmyndagerðin.“ Eða: „Íslenskar kvikmyndir eru hið raunverulega þjóðarleikhús.“

Þannig hefði blaðamaðurinn sem valdi ummælin gjarnan mátt kafa dýpra og skoða seinni tíma spakmæli eftir mig.




Skoðun

Sjá meira


×