Skoðun

Auglýsingaskrum Landsbankans!

Jónína Óskarsdóttir skrifar
Mikil var gleði mín og hvílíkur léttir þegar ég heyrði viðtal við bankastjóra Landsbankans, Steinþór Pálsson, í fréttum sjónvarps nýlega. Þar tilkynnti hann að tekin hefði verið um það ákvörðun í Landsbankanum að leiðrétta skuldamálin hjá viðskiptavinum bankans. Mig minnir að hann hafi sagt að það væri öllum í hag. Viðskiptavinir í skilum áttu að fá sérlega vinveittar móttökur og endurgreiðslu vaxta eitthvað aftur í tímann. Hvílíkur léttir!

Óvenjulétt á fjármálafæti fór ég í viðtal við minn ágæta þjónustufulltrúa í bankanum. Vildi fá að vita milliliðalaust hversu mikil fjárhæð „kona í skilum“ fengi vegna endurgreiðslu á vöxtum og jafnvel einhverja leiðréttingu á ofsaverðtryggðu láni.

Það kom í ljós að ég á ekki rétt á neinni lækkun lána. Gleðitíðindin fólust í því að veðsetningin er ekki yfir þeim prósentum sem Landsbankinn miðar við. Aukaatriði er það víst að eignahluturinn minn í íbúðinni hafi þurrkast út í hruninu. Lánið mitt sem ég tók fyrir 7 árum í Landsbankanum var kr. 12.400.000 en var í dag (27. júní) kl. 13.05; - kr. 18.063.364.

Von mín hafði verið að þær fimm milljónir sem ég átti í íbúðinni kæmu afkomendum mínum til góða.

Ég vissi þó að ég átti rétt á endurgreiðslu vaxta. Okkur þjónustufulltrúanum reiknaðist gróflega að það væru um það bil 240.000 krónur. Og hér kemur ástæða þess að ég sest niður og hamra hér á lyklaborðið. Þessar 240.000 krónur sem ég átti að fá endurgreiddar í vöxtum sem ég hef borgað ganga upp í höfuðstól lánsins! Sem sagt svokölluð endurgreiðsla sem ég átti rétt á fer bara í þennan sama botnlausa vasa Landsbankans. Hvort á að kalla þetta sjónhverfingar eða níðingsbragð þegar bankinn leyfir sér að hæðast að skuldaáþján landsmanna.

Þessar 240.000 krónur hefðu getað létt aðeins róðurinn hjá þessari láglaunakonu í skilum næstu mánuðina. Að vera í skilum með ofsa-vísitölutryggð lán – er ekki val heldur það sem maður neyðist til að gera því ekki er hægt að bæta lögfræðikostnaði ofan á afborganir sem fólk er að sligast undan. Guð hjálpi þeim sem eru með börn sem þurfa að fá að borða allan mánuðinn!

Nú vil ég biðja þá sem sterkir eru í stærðfræðinni að hjálpa mér að reikna út hvað þessi 240.000 króna „endurgreiðsla vaxta“ hefði orðið mikil hagræðing og skuldalækkun fyrir undirritaða; á mánuði næstu þrjátíu eða fjörutíu árin. Þá verð ég orðin 86 eða 96 ára gömul.

Vonandi fá þó einhverjir viðskiptaþræla Landsbankans leiðréttingu. Ég hvet alla; forðum okkur frá Landsbankanum – ef við getum. Við þessum tilfærslum á aurum segi ég – NEI TAKK! Þessari 240.000 króna tilfærslu getur bankastjóri Landsbankans Steinþór Pálsson troðið þangað sem aldrei skín ljós!




Skoðun

Sjá meira


×