Skoðun

Hrafnseyrarþing

Vésteinn Ólason skrifar
Ekki er laust við að þeir sem fylgst hafa með rannsóknum á Íslandssögu undanfarna áratugi undrist stundum orð alþingismanna þegar þeir fara að vísa til sögunnar. Í ræðum þeirra gætir einatt viðhorfa sem rekja má til sagnfræðirita eða sagnfræðiumræðu nítjándu aldar og fyrri hluta þeirrar tuttugustu. Þegar þessi sögufróðleikur hljómar í þingsölum hefur hann þó oftast farið gegnum mörg stig endurvinnslu síðan hann kom fyrst fram.

Nú hefur Alþingi stofnað prófessorsstöðu í minningu eins ágætasta sagnfræðings og textafræðings nítjándu aldar. Meginatriði í frétt um starfið er að prófessornum beri að stjórna málþingi á afskekktum stað á Vestfjörðum einu sinni á ári. Ekki er fullljóst af fréttum hvort embættið sé á sviði sagnfræði. Þó má ætla að það verði veitt sagnfræðingi eða a.m.k einhverjum sem stundað hafi árangursríkar og mikils metnar rannsóknir á sögu og menningu þjóðarinnar.

Með þessari samþykkt hefur Alþingi tekið viturlega ákvörðun sem gæti orðið til góðs. Í reglugerð ætti að kveða á um að alþingismenn skuli taka þátt í málþinginu fyrir vestan og njóta þar fræðslu um nýjustu viðhorf og niðurstöður rannsókna á sögu Íslands og menningu. Samgöngur við staðinn ættu að tryggja að þar geti menn einbeitt sér að náminu. Hæfilegt væri svo að prófessorinn héldi þingmönnum við efnið með vikulegum fyrirlestrum í Alþingishúsinu á starfstíma Alþingis. Þar hófust einmitt háskólafyrirlestrar fyrir einni öld.




Skoðun

Sjá meira


×