Skoðun

Dagdeildarmeðferð sem kostur?

Páll Eiríksson skrifar
Í tilefni af umræðum í fjölmiðlum undanfarið um erfiðleika í fangelsismálum okkar Íslendinga langar mig til þess að skjóta inn nokkrum orðum um valkosti. Í byrjun sjöunda áratugarins var ég sumarafleysingamaður í lögreglunni í Reykjavík og kynntist „hinni hliðinni“ á lífinu í Reykjavík. Seinna í læknanámi og eftir útskrift kynntist ég við störf á Kleppspítala æ fleirum, sem höfðu komist í kast við lögin og lent í fangelsi. Margir höfðu þeir/þær ungir í ölvímu eða síðari árin í vímu eiturlyfja brotið af sér og orðið „tugthúslimir“ fyrir. Þessir einstaklingar, sem oft komu frá brotnum heimilum eða „sjúkum“ fjölskyldum, með t.d. geðveikri móður og áfengissjúkum föður eru gjarnan viðkvæmar sálir. Sem börn höfðu þau aldrei fengið að finna fyrir þeim varnarmúr (protective shield) frá foreldrum/uppeldisaðilum, sem hverju ungviði er svo mikilvægt til þess að ná að þroskast og vaxa andlega, siðferðilega og félagslega. Frá árinu 1971 hef ég unnið 20 ár á Norðurlöndum á geðdeildum fyrir fullorðna, börn og unglinga og er sama sagan þar og hér. Einstaklingar, sem að mínum dómi vantaði grundvallarstuðning í æsku, lenda í fangelsi í stað þess að fá meðferð og aðstoð til að ná fótfestu í lífinu.

Á árunum 1979-1989 veitti ég forstöðu dagdeild geðdeildar Borgarspítalans. Byggðist starfsemi þessarar deildar, sem hafði allt að 24 sjúklinga í meðferð í einu, á hugmyndum frá Norðurlöndum, Hollandi, Þýskalandi og Bandaríkjunum. Á þessum árum heimsótti ég hartnær 60 geðdeildir í þessum löndum og þá fyrst og fremst dagdeildir og meðferðarheimili. Á dagdeild Borgarspítalans var megináhersla lögð á hópvinnu, en einstaklings- og fjölskyldumeðferð skipaði og háan sess á deildinni. Með þessu fyrirkomulagi skapaðist víxlverkun milli meðferðar, fjölskyldu og vinnu, sem að mínum dómi er mjög mikilvæg einstaklingum í sálarkreppu. Margir þessara einstaklinga höfðu átt við vímuefnavanda að etja í kjölfar vanrækslu í æsku, ofbeldis, misþyrminga, nauðgunar eða sifjaspella. Ekki var óalgengt að laganna verðir hefðu komið inn í líf þeirra.

Föstum reglum var fylgt á deildinni og fólk aðstoðað til þess að skipuleggja líf sitt og líta fram á við. Kallaði ég þessa meðferð „lífsins skóla“ í viðtölum við þá einstaklinga og fjölskyldur, sem meðferð fengu. Eftir u.þ.b. 3 mánaða meðferð fórum við að sjá árangur, en sumir komu á deildina mun lengur, enda er ekki til nein hraðspólun eftir margra ára andlegan sársauka og vanlíðan. Starfsfólkið, sem var frábært, var af ýmsum toga: hjúkrunarfræðingar, sjúkraþjálfarar, iðjuþjálfar, listþjálfar, sálfræðingar, félagsráðgjafar, aðstoðarlæknar og geðlæknar. Fór mönnun starfsliðsins eftir ýmsu og sama gilti um meðferðarúrræði og fræðslu. Meðferðin beindist bæði að hinu talaða orði og ekki síður tjáningu tilfinninga/hugsana í formi hreyfingar, teikninga, málunar o.s.frv. Á haustin var tekið slátur og kartöflur, sem settar höfðu verið niður um vorið, teknar upp.

Áhugi starfsfólks var mikill enda sást góður árangur í flestum tilvikum, en margir skjólstæðinga höfðu verið inn og út af geðdeildum, sumir um margra ára skeið. Deildin var rekin nær lyfjalaust. Í sambandi við dagdeildina var og sístækkandi göngudeild jafnframt því sem innlögðum einstaklingum á geðdeild Borgarspítala fækkaði.

Reynsla mín fær mig til þess að drepa niður penna og benda á dagdeildarmeðferð sem valkost í málum dæmdra manna/kvenna, sem ekki teljast hættuleg samfélaginu eða sem eftirmeðferð eftir fangelsisvistun. Tel ég að virk meðferð sérlega yngra fólks muni bera langvarandi árangur og mun betri en innilokun og lítið samband við fjölskyldu, atvinnulíf og lífið sjálft utan veggja fangelsis, Vitur maður og reyndur á þessu sviði Njörður P. Njarðvík sagði á fundi eitt sinn eitthvað á þessa leið: Er nokkurt vit í því að kasta óhörðnuðum unglingi, sem framið hefur „fíkniefnabrot“, beint á Litla Hraun eftir stutta afeitrun?

Vel verður að vanda bæði til vals á starfsfólki og þeim sem meðferð hljóta. Undirbúningur allur í formi forsamtala og jafnvel tilrauna til meðferðar þarf að vera vandaður. Ef vel er á spöðum haldið er ég ekki í vafa um að þjóðfélaginu takist á þennan hátt að breyta lífi margra einstaklinga til meiri þroska og ábyrgðar. Er þá horft til framtíðar, því að skaðaðir einstaklingar verða jú einnig foreldrar og makar. Bitur, niðurbrotinn einstaklingur verður sjaldnast öðrum góð fyrirmynd.

Glíma þarf á slíkum deildum við margvíslegan vanda, andlegan, siðferðilegan og félagslegan ásamt vafalaust fíkniefnavanda og þar gæti reynsla SÁÁ komið inn. Vonast ég til þess að ráðandi yfirvöld líti á þennan valkost í stað þess að einblína á stækkun lokaðra og einangraðra fangelsa. Fangelsa sem bjóða auk þess upp á margs konar hættur fyrir óþroskaða einstaklinga með lítið sjálfstraust og þol, til þess að standast álag frá forföllnum, reyndum afbrotamönnum. Margur maðurinn/konan hefur sagt við mig á löngum ferli mínum í geðgeiranum „Ég kom út úr fangelsi sem verri manneskja en þegar ég fór inn.“ Viljum við slíkt?

Árið 2007 sendi ég þessa grein til yfirmanns fangelsismála og fékk jákvæð viðbrögð. Enn hefur þó ekkert í þessa veru verið gert þrátt fyrir langa biðlista eftir afplánun dóma. Enda er kannski ekki á öðru von þegar bið eftir nýju fangelsi hefur staðið í marga áratugi. En þessi lausn, sem ég bendi hér á gæti vafalaust stytt biðlista eftir afplánun mikið.




Skoðun

Sjá meira


×