Skoðun

Ekki frestun greiðslna nýrra umsókna

Ásta S. Helgadóttir skrifar
Tímabundið ákvæði í lögum um greiðsluaðlögun einstaklinga, þess efnis að frestun greiðslna hefjist við móttöku umsóknar fellur niður þann 1. júlí næstkomandi. Ljóst er að Alþingi mun ekki framlengja gildistíma þessa ákvæðis og mun það því skipta töluverðu máli fyrir skuldara hvort þeir sækja um greiðsluaðlögun fyrir eða eftir næstu mánaðamót. Breyting þessi hefur engin áhrif á þær umsóknir um greiðsluaðlögun sem berast fyrir 1. júlí.

Það að fá greiðslufrestun þýðir að ekki má krefja skuldara eða ábyrgðarmenn um gjaldfallnar kröfur eða greiðslur af lánum, ekki má gjaldfella skuldir, gera fjárnám, framkvæma kyrrsetningu eða fá eigur seldar nauðungasölu. Kröfuhafar mega ekki taka við greiðslum þegar greiðslufrestun er í gildi.

Þeir sem sækja um eftir 1. júlí fá hins vegar ekki greiðslufrestun fyrr en umsóknin hefur verið samþykkt. Miklu getur því skipt hvenær sótt er um greiðsluaðlögun og því mikilvægt fyrir þá sem telja sig þurfa greiðslufrestun strax og telja sig uppfylla skilyrði greiðsluaðlögunar að sækja um greiðsluaðlögun fyrir 1. júlí.

Fjölmargar fjölskyldur eru í sárum vegna þess að þær ráða ekki við greiðslubyrði skulda sinna. Mikilvægt er að fólk leiti sér aðstoðar sem fyrst þegar í þennan vanda er komið, meðal annars með því að leita til umboðsmanns skuldara. Hægt er að leita til embættisins með því að koma í Kringluna 1 alla daga frá kl. 9-15. Ekki þarf að panta tíma. Einnig er hægt að hringja á símatíma milli kl. 13-15. Færir ráðgjafar embættisins veita þeim sem til embættisins leitar ókeypis aðstoð við að finna það úrræði sem hentar.

Mikill meirihluti afgreiddra umsókna um greiðsluaðlögun hefur verið samþykktur, eða 790 umsóknir af þeim 950 sem afgreiddar hafa verið. Um 8 prósentum umsókna hefur verið synjað og um 9 prósent hafa verið afturkallaðar að frumkvæði umsækjenda sjálfra. Að auki hafa verið afgreidd um 500 önnur greiðsluerfiðleikamál, þar sem leitað er vægari lausna en felast í greiðsluaðlögun.




Skoðun

Sjá meira


×