Innlent

Rjúpum fækkar um 26 prósent

Rjúpum fækkar um nær allt land á milli áranna 2010 og 2011. Mat á veiðiþoli stofnsins mun liggja fyrir í ágúst.fréttablaðið/KK
Rjúpum fækkar um nær allt land á milli áranna 2010 og 2011. Mat á veiðiþoli stofnsins mun liggja fyrir í ágúst.fréttablaðið/KK
Rjúpum fækkaði um nær allt land á milli áranna 2010 og 2011 og nemur meðalfækkun rjúpna á öllum talningarsvæðum um 26 prósentum. Mat á veiðiþoli stofnsins mun liggja fyrir í ágúst í kjölfar mælinga á varpárangri, afföllum 2010 og 2011 og veiði 2010.

Fækkunin varð sérstaklega hröð á Norðausturlandi, þar sem stofninn helmingaðist á milli ára. Á Suður-, Suðvestur- og Vesturlandi virðist stofninn hafa verið í hámarki 2009 og talningar sýna kyrrstöðu á milli 2010 og 2011. Á sex af átta talningarsvæðum í friðlandinu á Suðvesturlandi var kyrrstaða eða aukning á milli ára.

Rjúpur voru taldar á 43 svæðum í öllum landshlutum. Alls voru taldir 1.285 karrar, sem eru um 2% af áætluðum heildarfjölda karra í landinu samkvæmt nýlegu stofnstærðarmati. Talið var á um 3% af grónu landi neðan 400 metra hæðarlínu. Talningarnar voru unnar í samvinnu við allar náttúrustofur landsins, Þjóðgarðinn á Þingvöllum, Vatnajökulsþjóðgarð, Fuglavernd, Skotvís og áhugamenn. Um 65 manns tóku þátt í talningunni að þessu sinni. Náttúruleg lengd stofnsveiflu íslensku rjúpunnar er um ellefu ár. Stofninn var í hámarki vorið 1998 og aftur tólf árum síðar, árið 2010.- kóp




Fleiri fréttir

Sjá meira


×