Innlent

Boða verkfall á leikskólum

Haraldur F. Gíslason
Haraldur F. Gíslason
Leikskólakennarar hafa samþykkt að boða til verkfalls hinn 22. ágúst ef ekki tekst að ljúka kjarasamningum við sveitarfélögin fyrir þann tíma. Haraldur Freyr Gíslason, formaður Félags leikskólakennara, segir að mikill samhugur sé í stéttinni, sem sjáist vel í eindreginni niðurstöðu atkvæðagreiðslu félagsmanna.

84,7 prósent félagsmanna tóku þátt í kjörinu og 96 prósent þeirra greiddu atkvæði með verkfallsaðgerðum.

„Ég var búinn að finna mikinn kraft í leikskólakennurum undanfarið og þeir sætta sig ekki við sinn hlut lengur," segir Haraldur í samtali við Fréttablaðið og bætir því við að grunnkrafan sé að kjör leikskólakennara verði gerð sambærileg við aðrar stéttir sem þeir miði sig við.

„Við höfum verið að dragast aftur úr viðmiðunarstéttum frá árinu 2008 og erum nú á eftir þeim svo talsverðu munar. Við höfðum fengið viðurkennt að sömu laun ættu að gilda fyrir sömu menntun og þannig var það. Svo er hins vegar ekki lengur og við viljum leiðréttingu á okkar kjörum."

Haraldur segir að byrjunarlaun leikskólakennara séu nú um 247 þúsund krónur á mánuði, fyrir skatt, sem sé fjarri því að vera boðlegt eftir fimm ára háskólanám til að ljúka mastersgráðu.

„Það bara gengur ekki. Við erum bara ekki samkeppnishæf á markaði."

Spurður hvort mikið beri á milli aðila í kjaraviðræðunum segir hann að sveitarfélögin hafi hingað til aðeins viljað bjóða leikskólakennurum álíka hækkanir og fengust í nýgerðum samningum á almennum vinnumarkaði. „En það erum við ekki tilbúin að sætta okkur við," segir Haraldur en vill ekki gefa upp hverjar kröfur þeirra séu nákvæmlega.

Hann bætir því við að verði kjör leikskólakennara ekki leiðrétt muni það koma niður á sókn í námið.

„Sókn í staðnámið hefur verið í sögulegu lágmarki þar sem nú eru níu nemar, þó að enn sé ágæt sókn í fjarnámið. En ef fram fer sem horfir á staðan aðeins eftir að versna."

Þó að enn sé drjúgur tími þar til boðað verkfall hefst segist Haraldur vonast til þess að samningar takist fljótlega.

„Ég ætla bara að vona að viðsemjendur okkar ætli ekki að reyna að tefja málið. Það væri verulega hallærislegt að reyna þann leik og við sættum okkur ekki við slíkt."thorgils@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×