Skoðun

Ný tækifæri fyrir tæknisinnaða

Hjálmar Árnason skrifar
Varla hefur farið framhjá neinum hróp atvinnulífsins eftir tæknimenntuðu fólki. Það er grafalvarleg staða ef íslensk fyrirtæki geta ekki fengið til sín tæknimenntað fólk. Auglýsingar fyrirtækja að undanförnu sýna þennan vanda í hnotskurn. Í 20/20 markmiðum ríkisstjórnar er þung áhersla lögð á að efla tæknimenntun. Í sama streng taka samtök á vinnumarkaði. Málið er grafalvarlegt því án tæknimenntaðs fólks mun stöðnun ríkja á vinnumarkaði okkar. Úr þessu þarf að bæta.

Atvinnumöguleikar tæknimenntaðs fólks eru miklir. Tæknifræði býður upp á góða og fjölbreytilega vinnu og góðar tekjur og ætti því að vera eftirsótt nám. Meðallaun félagsmanna í Félagi tæknifræðinga eru um 600 þúsund á mánuði, skv. síðustu kjarakönnun TFÍ. Þrátt fyrir þetta sækja ekki nægilega margir í tæknimenntun á Íslandi.

Keilir og Háskóli Íslands bjóða upp á tæknifræði þar sem áhersla er lögð á verkefnavinnu með raunhæfum verkefnum. Gott dæmi um það er að einn nemenda mun taka hið glæsilega hús, Hörpu, sem lokaverkefni og skoða orkunýtingu tónlistarhallarinnar og leiðir til að ná enn betri árangri. Inn í námið eru nemendur metnir á grundvelli menntunar og reynslu og „stungið inn“ í námið miðað við raunfærni þeirra. Síðari hluta námsins verður hægt að stunda með vinnu. Þarna er nýtt tækifæri fyrir áhugasama á öllum aldri.

Í samstarfi við Háskóla Íslands, Iðnskólann í Hafnarfirði, Fjölbrautaskóla Suðurnesja, Tæknifræðingafélagið og fjölmörg fyrirtæki vill Keilir svara kalli atvinnulífsins. Meðal fyrirtækja sem koma að þessu samstarfi eru Marel, Össur, Mannvit, HS Orka, HS Veitur og Frumherji. Samstarf skólanna fjögurra gengur út á að skipuleggja nám sem nær frá byrjun framhaldsskóla til lokaprófs í tæknifræði á háskólastigi. Sveigjanleiki í námi er lykilþáttur í samstarfinu og verður nemendum gert kleift að taka námið í nokkrum þrepum.

Keilir er á Ásbrú í Reykjanesbæ. Nemendum býðst að leigja íbúðir á ævintýralegum kjörum og/eða nota rútuferðir (10 á dag) milli höfuðborgarsvæðis og Ásbrúar. Hægt er að fá íbúðir leigðar á verði sem telst einkar hagstætt eða frá kr. 60.000 á mánuði og niðurhal af neti innifalið.

Með þessu samstarfi vilja skólarnir og fyrirtækin bregðast við hinni æpandi þörf á tæknifræðimenntuðu fólki. Við opnum skil milli skólastiga, bjóðum fjölbreytilegt og lifandi nám sem býður vel launuð og skemmtileg störf sem bíða eftir áhugasömu fólki.




Skoðun

Sjá meira


×