Skoðun

Markvissar vímuefnaforvarnir byggja á samvinnu heilbrigðisstétta

Eyjólfur Guðmundsson skrifar
Vegna fjölmiðlaumræðu í tengslum við „læknadóp“ og stefnu heilbrigðisyfirvalda í forvörnum og meðferðarmálum vímuefnasjúklinga vil ég koma á framfæri viðhorfum mínum, en ég hef starfað í fjölmörg ár sem heimilislæknir í Reykjavík og haft sérstakan áhuga á velferð sjúklinga með vímuefnavandamál.

Meðferðarstarf SÁÁ er gríðarlega mikilvægt og erfitt væri að gera sér í hugarlund hver staða vímuefnasjúklinga á Íslandi væri í dag ef samtökin hefðu ekki verið stofnuð. Starfsemi SÁÁ er þó alls ekki hafin yfir alla gagnrýni. Allt frá stofnun samtakanna fyrir 33 árum hefur meðferðin fengið að þróast einangruð frá heilsugæslunni í landinu, en það er því miður svo að sambandsleysi heilsugæslunnar við áfengismeðferð SÁÁ í gegnum árin hefur staðið í vegi fyrir eðlilegri þróun þekkingar á vímuefnasjúkdómum innan heilbrigðisþjónustunnar og gert stuðning við alkóhólista og aðstandendur þeirra kannski ekki eins markvissan og orðið hefði ef samvinnu hefði notið við. Þá stefnu SÁÁ að aðgreina sig frá heilsugæslunni mátti skilja í árdaga meðferðarinnar en hún á alls ekki við lengur – er tímaskekkja.

Að lokinni meðferð og í öllu endurhæfingarferlinu kemur iðulega til kasta heimilislækna. Vímuefnasjúklingar og ekki síst aðstandendur þeirra eru tíðir gestir í heilsugæslunni til greiningar og meðferðar á líkamlegum og sálrænum kvörtunum auk þess að þurfa ýmis vottorð, m.a. endurhæfingar- og örorkuvottorð fyrir Tryggingastofnun og ýmis vottorð í samskiptum við félagsþjónustuna. Brýnt er að bæta starfsumhverfi heimilislækna, sem hefur átt á brattann að sækja undanfarið, og liður í því er að koma í veg fyrir að heimilislæknar þurfi að starfa í myrkri við að sinna vímuefnafíklum.

Vímuefnafíkn á ekki að vera sjúkdómur þagnarinnar í heilsugæslunni. Það sem ég á við með sambandsleysi meðferðarstarfs SÁÁ og heilsugæslunnar er fyrst og fremst tregða samtakanna að senda eðlilegar heilbrigðisupplýsingar í formi læknabréfa eins og lögboðið er og kveðið er á um í heilbrigðisreglugerð. Ég hef margoft sem heimilislæknir reynt að efna til samvinnu við SÁÁ og fært fyrir því gild rök, m.a. í nokkrum greinum í Læknablaðinu og í erindi sem ég flutti á Læknadögum fyrir þremur árum, þar sem yfirlæknir og þáverandi formaður SÁÁ var m.a. viðstaddur. Það hefur vakið undrun mína og vonbrigði hversu fálega málaleitan minni hefur verið tekið. Ég hef velt talsvert fyrir mér ástæðu tregðu SÁÁ á útgáfu læknabréfa en átta mig alls ekki á því hvað getur skýrt hana. Sú skýring hjá SÁÁ að senda ekki læknabréf þar sem starfsfólk og fjármuni vanti stenst ekki skoðun því í raun er það ekki SÁÁ sem ákveður eða hefur eitthvað um það að segja hvort þörf sé á læknabréfum til heilsugæslunnar – um það er skýrt ákvæði í heilbrigðisreglugerð. Vímuefnasjúklingar og aðkoma heilbrigðisþjónustunnar að málefnum þeirra er ekki einkamál SÁÁ. Rétt er að það komi fram að vímuefnadeild Landspítala (33A) sendir læknabréf um alla sína sjúklinga sem hafa skráðan heimilislækni.

Áfengismeðferð kemur að sjálfsögðu heimilislæknum við og heimilislæknar, vímuefnasjúklingar og aðstandendur þeirra eru almennt þeirrar skoðunar að svo sé. Læknabréf eru mikilvæg samskiptaleið lækna en samvinna heilbrigðisstarfsfólks sem byggir á gagnkvæmri virðingu og trausti er undirstaða skilvirks heilbrigðiskerfis. Bréfin hafa fyrst og fremst faglegan tilgang en eru einnig mikilvægur hluti af eftirliti og gæðamati heilbrigðisstofnana. SÁÁ á að sjálfsögðu að fagna því gæðaeftirliti sem felst í læknabréfum.

Eftirlit með heilbrigðisstofnunum má ekki byggja á naflaskoðun og því fagna ég sérstaklega frumkvæði Guðbjarts Hannessonar velferðarráðherra, sem boðar aukið eftirlit stjórnvalda með meðferðarstofnunum sem eru með samninga við ríkið. Fjárveitingar af almannafé til reksturs meðferðarstöðva á að sjálfsögðu að skilyrða kröfu um skipulagða samvinnu við heilsugæsluna. Ekki er óeðlilegt að stjórnvöld vilji aukið samstarf við SÁÁ um að gera eins mikið og hægt er úr því fé sem til málaflokksins rennur. Eitt af meginverkefnum í heilbrigðisþjónustu framtíðarinnar verður að tryggja sjúklingum með langvinna sjúkdóma og þ. á m. vímuefnasjúkdóma samfellu í þjónustu. Allir hljóta að sjá að slíkt fyrirkomulag gerði samspil vímuefnasjúkdóma og algengra líkamlegra og geðrænna sjúkdóma ljósara og sparaði um leið veruleg útgjöld í heilbrigðisþjónustu. Að sjálfsögðu stuðlaði slíkt fyrirkomulag að því að gera ávísanir lækna á lyfseðilsskyld ávanalyf („læknadóp“) markvissari. Hér er um að ræða sameiginlegt hagsmunamál SÁÁ, heilsugæslunnar, sjúklinga og samfélagsins alls.

Um leið og ég óska Gunnari Smára Egilssyni, nýkjörnum formanni SÁÁ, velfarnaðar í starfi óska ég þess innilega og með heilum hug að hann átti sig á mikilvægi eðlilegra samskipta SÁÁ við heilsugæsluna.




Skoðun

Sjá meira


×