Skoðun

Barnalán í Reykjavík

Afleiðingar kreppunnar eru margvíslegar. Flestar hafa þær reynt á samfélagið og fjölskyldurnar. Aðrar afleiðingar eru ánægjulegar og jafnframt óvæntar. Barnafjölgunin sem orðið hefur í Reykjavík er svo sannarlega gleðiefni. Á þessu ári er von á stærsta árgangi Íslandssögunnar inn í leikskóla borgarinnar. Þetta eru börn sem fædd eru 2009. Árgangurinn sem fæddist 2010 er einnig stór. Því verður þrýstingur á dagforeldrakerfið og leikskólana mikill á næstu árum. Verður mikil áskorun að tryggja öllum þessum nýju borgurum leikskólapláss. Reykjavíkurborg hefur lengi miðað við að börn geti hafið leikskólagöngu á árinu sem þau verða tveggja ára. Til þess að tryggja þessa brýnu þjónustu forgangsraðaði meirihluti Besta flokksins og Samfylkingarinnar með því að auka framlög til Leikskólasviðs um 658 milljónir króna, þar af fara framlög fyrir tæplega hálfan milljarð króna til fjölgunar leikskólaplássa og þjónustu dagforeldra.

Hvað þýðir slík barnasprengja?Við viljum öll að börn í þessum stóra árgangi frá 2009 geti hafið leikskólagöngu á þessu ári en þau eru tæplega 300 fleiri en þau börn sem hefja grunnskólagöngu í haust. Til þess að setja hlutina í samhengi er húsnæðisþörfin á við þrjá nýja fimm deilda leikskóla og fjölga þarf starfsfólki leikskóla um 55 til þess að annast börnin. Um síðustu áramót þurfti 50 dagforeldra í þjónustusveit Reykjavíkurborgar til þess að foreldrum verði gert kleift að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóladvalar. Öll þessi markmið eru innan seilingar eða í höfn því strax þegar nýr meirihluti tók við setti borgarstjórn þessi mál í algjöran forgang. Viðamikil greining fór fram á öllum mögulegum húsnæðiskostum til að koma til móts við áhugasama dagforeldra sem vilja gjarnan starfa tveir saman og leigja húsnæði af borginni. Eins voru allir hugsanlegir möguleikar á stækkun eldri leikskóla með færanlegum húsum skoðaðir, sem og nýting grunnskólahúsnæðis á nýjan hátt til að koma til móts við leikskólabörnin. Grettistaki hefur verið lyft og vil ég færa starfsfólki borgarinnar sem starfar að skóla- og frístundamálum, sem og framkvæmda- og skipulagsmálum, fyrir vel unnin störf og gríðarlegan metnað við að standa að þessu mikla átaki með okkur.

Hvað erum við að gera?Víða verður færanlegum húsum komið fyrir við eldri leikskóla, sérstaklega í Vesturbæ og Laugardal en þar er mikil þörf á leikskólaplássum. Við munum nýta húsnæði grunnskólanna betur fyrir frístundastarf svo að húsnæði frístundar geti nýst fyrir leikskólastarf eða þjónustu dagforeldra. Nú er verið að skoða hvort nýta megi húsnæði gæsluvalla og skólagarða á nokkrum stöðum í borginni fyrir áhugasama dagforeldra. Þar er yndislegt umhverfi og að mörgu leyti ákjósanleg aðstaða fyrir dagforeldra sem starfa saman í félagi. Dagforeldrum hefur fjölgað um tæplega 30 í Reykjavík síðan við hófum markvisst átak til að koma til móts við barnasprengjuna. Ég vil bjóða þá hjartanlega velkomna til starfa og fagna liðsinni þeirra. Þeim mun fjölga enn frekar á næstunni því biðlisti er eftir því að nýta húsnæði á gæsluvöllum og skólagarðahús, sem og annað húsnæði í eigu Reykjavíkurborgar til útleigu fyrir dagforeldra. Ber að fagna þeirri fjölgun.

Skilningur og samstaðaUnnið er hörðum höndum að því að flýta öllu skipulags- og undirbúningsferli svo húsnæði uppfylli öll skilyrði og geti nýst ungum börnum sem allra fyrst. Leikskólastjórar hafa verið óþreytandi í því verkefni að kanna möguleika á því að stækka eldri leikskóla og nýta húsnæði betur. Jákvæðni þeirra gagnvart því að stækka leikskóla sína er einkar lofsverð. Margir íbúar í Reykjavík munu innan tíðar fá bréf frá skipulagsyfirvöldum þar sem auglýstar verða nauðsynlegar breytingar, t.a.m. færsla færanlegra húsa á lóðir eldri leikskóla. Ég vil biðja íbúa Reykjavíkur um að sýna breytingunum skilning og umburðarlyndi. Ljóst er að gríðarlegir hagsmunir felast í því fyrir Reykvíkinga að tryggja ört stækkandi fjölskyldum dvöl á okkar vönduðu leikskólum, en ekki síst að komast hjá því að byggja nýja leikskóla fyrir þessa stóru árganga. Óvíst er að þörfin fyrir svo mörg leikskólapláss sé til framtíðar. Stærsta velferðarmálið fyrir fjölskyldur í Reykjavík er örugg og metnaðarfull vistun hjá dagforeldrum og faglegt leikskólastarf fyrir ung börn sín. Því trausti mun borgarstjórn ekki bregðast.




Skoðun

Sjá meira


×