Skoðun

Við erum dálítið ólík innbyrðis

Valgarður Egilsson skrifar
Kringumstæður dýra, umhverfi þeirra, afkomumöguleikar þeirra, eru mismunandi. Með tímanum getur það leitt til mismunar innan tegundarinnar; mismunur þessi er oft orðinn arfgengur eins og dæmin sýna, fiskar vaxa í mismunandi stærð þótt hafi nóg æti, menn eru misstórir vexti, misgóðir í kúluvarpi, músík, ólíkir á litinn, lögun á nefi er mismunandi, allt getur þetta erfst.

Þannig getur orðið erfðafræðilegur munur á einstaklingum innan tegundarinnar.

Breytileikinn getur verið frá manni til manns, milli héraða, milli landa. Sumir lifa af harðneskjuleg skilyrði, aðrir ekki. Maðurinn lifir á mörkum – lífvænlegra skilyrða. Visst úrval hefur til dæmis gert ákveðnum hópum auðveldara að búa í Síberíu en öðrum.

Vissar stjórnmálastefnur afneituðu því, að menn gætu verið misjafnir að erfðum, menn áttu þá að vera jafnir við fæðingu, þ.e. eins. En erfðafræði þessa máls er bærilega skýr.

Auðvitað eru menn ólíkir að upplagi, þ.e. erfðum. Og auðvitað ráða aðstæður mjög hvernig úr rætist. Breytileiki innan tegundarinnar homo sapiens er vel þekktur en hann er ekki af völdum vondra manna.

Snemma á 20. öldinni loddi mjög við önnur stjórnmálaöfl sú kenning að hvíti maðurinn byggi við meiri greind en dekkri kynstofnar. Mælitækni og túlkun reyndust haldlítil vísindi. Sumt var falsað. Í skólum vestrænna iðnvæddra landa varð geta til bóknáms aðalviðmið þegar almenna hæfni átti að meta. Ó, vei! Verksvit er reyndar fallegasta tegund af viti. Gott verksvit þarf til að mæla það.

Auðvitað eru menn misjafnir að upplagi, en upplagið er afar erfitt að meta eða mæla, túlkun á niðurstöðum ennþá flóknari. Hér er mikið pláss fyrir hleypidóma, sleggjudóma og fordóma. Samansetning á hinum fjölmörgu erfðaþáttum einnar manneskju gefur heildarútkomu – þá sem mann varðar kannski um – en þá samansetningu er ekki hægt að mæla.

Að ofan var bent á hve ólíkir og mismunandi við menn værum. Nú verður að finna út hvernig við förum að því að lifa saman, svo ólíkir sem við erum. Við reynum að samræma alla hluti – það er svo hagkvæmt – og réttlátt! – samræmt er námsefni skóla, stærð banana á markaði, klæðaburður nemenda, tímasetning á upphafi skóladags. Varla getur samræming allra málaflokka verið góð fyrir alla – svo ólík sem við erum innbyrðis.




Skoðun

Sjá meira


×