Skoðun

Er grasið þitt grænt?

Sigurður Friðleifsson skrifar
Fyrir utan einstaka kalskemmdir munu flestir garðeigendur svara ofangreindri spurningu játandi. Vissulega er grasið sjálft nær undantekningalaust fagurgrænt en spurningin snýst um hvort slátturinn sé jafn grænn og grasið. Mikið er rætt um umhverfisvernd og nauðsynleg framtíðarorkuskipti í samgöngum enda öllum ljóst að olían er takmörkuð auðlind. Þetta þýðir í stuttu máli að hver lítri af olíu verður einungis brenndur einu sinni og sú orka sem af brunanum leiðir verður ekki í boði fyrir næstu kynslóðir. Bruninn myndar einnig koltvísýring sem eykur hættuna á neikvæðum loftslagsbreytingum. Þó að enn séu vandfundnir rafbílar á hagstæðu verði gildir það sama ekki fyrir rafmagns-sláttuvélar og orf.

Orkuskipti í garðinumÞað er ekki víst að allir átti sig á að olíunotkun á sláttuvélar hefur margvísleg neikvæð áhrif sem auðvelt er að fyrirbyggja. Bensínsláttuvél brennir olíu sem kostar dýrmætan gjaldeyri og mengar andrúmsloftið. Slátturinn veldur einnig miklum hávaða sem pirrað getur nágranna og truflað dýralíf. Gefum okkur að bensínsláttuvél eyði um 20 ml af bensíni á mínútu og að garðeigendur þurfi að jafnaði að slá garðinn átta sinnum yfir sumarið, hálftíma í senn.

Fimmtíu þúsund garðeigendur nota þá, miðað við gefnar forsendur, um 250.000 lítra af olíu á hverju sumri við garðslátt. Slíkt magn af olíu gæti keyrt smábíl 125 sinnum umhverfis jörðina. Sem betur fer er endingartími sláttuvéla takmarkaður og endurnýjunarþörfin býsna tíð. Hvernig væri að staldra aðeins við þegar næsta sláttuvél eða orf er keypt og kýla á orkuskipti í garðinum? Sláttuvélar sem ganga fyrir rafmagni eru oftast ódýrari í innkaupum, þær nota innlenda orku sem kostar miklu minna og mengar ekkert. Þær eru þar að auki mun hljóðlátari, sem gerir garðslátt á laugardagsmorgni mun nágrannavænni. Hættum að nota olíu í garðinn og skiptum yfir í rafmagn.

Íslensk raforka er ódýr og græn og því er engin ástæða til að eyða gjaldeyri í garðinum. Skiptu yfir í græna garðyrkju næst þegar þú kaupir sláttuvél.




Skoðun

Sjá meira


×