Skoðun

Þjóðaratkvæðagreiðslur og ráðgefandi þing

Þorbergur Þórsson skrifar
Þessa dagana vinnur stjórnlagaráð að því að semja frumvarp til nýrrar stjórnarskrár. Það er löngu tímabært. Í frumvarpinu verður ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og hvernig til þeirra verði stofnað. Sennilega verður lagt til að tiltekinn hluti kjósenda og e.t.v. einnig tiltekinn hluti alþingismanna geti óskað eða krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekin mál. Þetta verður mikið framfaraskref. Eðli málsins samkvæmt verða þjóðaratkvæðagreiðslur einkum haldnar um mikilvæg álitaefni. Þess vegna má búast við að þjóðaratkvæðagreiðslurnar geti stuðlað að því að kjósendur í landinu verði upplýstari og betur að sér um brýn álitamál, sem til þessa hafa einkum verið til umfjöllunar meðal stjórnmálamanna. Það getur líka orðið til að bæta ákvarðanatöku stjórnvalda.

Nú eru margir kostir við það fyrirkomulag að almenningur kjósi trausta og skynsama fulltrúa á þing til að setja landinu lög og ákveða hlutina. Mörg álitamál sem stjórnvöld þurfa að taka afstöðu til eru flókin. Það er tímafrekt að kynna sér þau á fullnægjandi hátt. Hver getur óskað sér þess að þurfa að setja sig inn í mál á borð við Icesave-deiluna, þegar það er hægt að nota tímann í annað? Eða taka afstöðu til flókinna breytinga á smáatriðum í skattalöggjöfinni?

Staðreyndin er sú að frá sjónarmiði einstaklinga virðist tíminn sem fer í að hugsa um sameiginleg málefni okkar oft fara fyrir lítið. Með því að hugsa um landsins gagn og nauðsynjar kasta menn tíma sínum á glæ. Það er margt sem veldur því. Eitt er að venjulegt fólk er valdalítið. Ef lesandi þessarar greinar hefur sett sig mjög vel inn í tiltekið mál, til dæmis um staðsetningu Landspítalans, eða Vaðlaheiðargöng, eða tvöföldun Suðurlandsvegar, eða Sundabraut, svo nokkur dæmi séu tekin, er líklegast að sú ágæta þekking sem þessi ábyrgi og áhugasami borgari hefur aflað sér komi að litlu gagni nema svona í spjalli við vini og kunningja.

Þetta er ein ástæðan fyrir því að það er gott að velja fólk á þing til að taka ákvarðanir og setja sig inn í hlutina. Önnur ástæða er sú að eftir því sem fólk hefur eytt meiri tíma í að setja sig inn í hin samfélagslegu málefni getur það verið fljótara að átta sig á nýjum álitaefnum. Þegar allt kemur til alls virðast stjórnmál, öðrum þræði að minnsta kosti, vera „fag“. Látum fagmennina um þetta, er oft sagt. Og við látum fagmennina um þetta. Stjórnmálin virðast vera atvinnugrein, sumir hafa atvinnu af stjórnmálavafstri jafnvel frá unga aldri.

En ég vil taka allt annan pól í hæðina. Almenningur hefur nefnilega gott af því að „kasta tíma sínum á glæ“ og hugsa um landsins gagn og nauðsynjar og skeggræða hlutina. Auðvitað í hófi. Þegar allt kemur til alls er það ekki sæmandi fyrir menn að lifa lífinu án afskipta eða þátttöku í ákvörðunum sem varða lífshagsmuni þeirra. Sinnuleysi um slíkt sæmir ekki frjálsu fólki.

Og ég fæ ekki betur séð en að að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um mikilvæg mál séu góð leið til þess að vekja fólk upp af doðanum. Og knýja það til þess að taka misvitrar ákvarðanir um málin. Þá þarf hver og einn kjósandi sem hefur haft skoðun á hinu erfiða máli að standa fyrir máli sínu gagnvart kunningjum sínum og vinum í umræðum um málið. Það hlýtur að vera bæði hollt og gott.

Við höfum lengi haft þing, sem hefur tekið einmitt misvitrar ákvarðanir um mikilvæg mál. Stundum virðist það líka hafa látið sér nægja að taka ekki ákvarðanir um mikilvæg mál. Þá hafa ákvarðanirnar að því er virðist eiginlega bara tekið sig sjálfar, svo furðulegt sem það nú er.

Það er enginn skortur á stórum málum í samtíma okkar. Hér fyrr voru nefnd fáein dæmi. En það má bæta nýjum dæmum við. Spurninguna um lögleiðingu staðgöngumæðrunar, sem þingmenn voru næstum því búnir að hleypa í einum hvínandi hvelli í gegn fyrir fáeinum vikum. Spurninguna um hvort við eigum að viðhafa almennilegt landamæraeftirlit. Hvort við eigum að banna starfsemi samtaka ef þau virðast einkum fást við glæpastarfsemi. Hvort við eigum að takmarka botnvörpuveiðar til að vernda hafsbotninn. Þetta eru auðvitað bara fáein dæmi.

Að mínu mati eru þau mál sem hér hafa verið nefnd ekki endilega öll heppileg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur. En ég tel að hugmyndir og fyrirætlanir stjórnvalda um mál af þessu tagi verðskuldi hins vegar örugglega mun ítarlegri og nánari skoðun og ígrundun af hálfu almennings en farið hefur fram til þessa.

Ég vil því varpa fram þeirri hugmynd að í stjórnarskrá verði ekki aðeins kveðið á um möguleikann á að knýja fram þjóðaratkvæðagreiðslur, heldur verði þar einnig kveðið á um að unnt sé að kalla saman ráðgefandi þing um tiltekin mál. Það má hugsa sér að stjórnvöld þurfi að halda þjóðaratkvæðagreiðslur um málefni af nánar afmörkuðum toga ef 20% atkvæðabærra manna óska eftir því. Þá mætti hugsa sér að ef ekki fást alveg nógu margir til að óska eftir þjóðaratkvæðagreiðslu – ef til dæmis aðeins 10–15% atkvæðabærra manna hafa skrifað undir slíka ósk – þyrftu stjórnvöld að setja á fót ráðgefandi þing um málið. Ráðgefandi þing yrði eins konar millileið. Það hefði mjög stuttan starfstíma. Á þingið yrði valið með vönduðu slembiúrtaki, til dæmis 50 einstaklingar til að starfa í til dæmis 3 til 5 daga. Þetta ráðgefandi þing – eins konar kviðdómur eða kviðstefna – þyrfti að fá vönduð gögn um málið frá stjórnvöldum auk þeirra gagna sem hin opinbera umræða hlýtur ævinlega að skila. Og þingið þyrfti að senda frá sér niðurstöðu um málið, helst rökstudda.

Búast má við að slík ráðstefna gæti kostað svolítið fé. Það er allt í lagi. Það hefur nefnilega marga kosti í för með sér að kalla til slíkrar ráðstefnu. Undirbúningur ráðstefnunnar krefst þess að stjórnvöld taki saman almennileg gögn um kost og löst á fyrirhugaðri ákvörðun, því annars er hætta á að ráðstefnan leggist gegn ákvörðuninni. Mig grunar að þetta eitt og sér gæti verið mjög mikið framfaraskref í stjórnsýslunni í landinu okkar. Hið opinbera álit sem ráðstefnan sendi frá sér myndi auk þess verða aðhald fyrir stjórnsýsluna og löggjafann. Og síðast en ekki síst myndi þátttaka í ráðstefnunni vera til þess fallin að mennta þátttakendur og efla með þeim borgaralegar dyggðir.




Skoðun

Sjá meira


×