Skoðun

Þjóðarátak gegn ofbeldi

Kristín Ástgeirsdóttir skrifar
Um þessar mundir standa velferðarráðuneytið og Jafnréttisstofa fyrir fræðsluátaki um kynbundið ofbeldi. Í stórri rannsókn sem gerð var á árunum 2009-2011 fyrir velferðarráðuneytið kom fram að mikil þörf er fyrir almenna fræðslu sem og grunn- og endurmenntun fagstétta, ekki síst heilbrigðisstétta um kynbundið ofbeldi, einkenni þess og afleiðingar. Unnið er að margvíslegum rannsóknum en þær þarf að kynna betur, efla og fylgja eftir með úrræðum. Þá skortir okkur þekkingu á ákveðnum hópum, t.d. fötluðum konum og körlum og erlendum konum. Tölur frá Kvennaathvarfinu um komur erlendra kvenna eru þess eðlis að þær kalla á sérstakar aðgerðir.



Í glænýrri skýrslu UNICEF á Íslandi er því haldið fram að kynferðisofbeldi sé mesta ógnin við velferð barna á Íslandi. Slíkt ástand getur velferðarríkið Ísland að sjálfsögðu ekki sætt sig við.

Frá upphafi starfsemi Stígamóta árið 1990 til 2010 hafa 5.653 einstaklingar leitað sér aðstoðar vegna kynferðisofbeldis. Ofbeldismenn eru 7.969 samkvæmt skýrslu Stígamóta en sumir kunna að koma oftar en einu sinni við sögu. Konur eru mikill meirihluti brotaþola en smám saman hefur verið að koma í ljós hve margir drengir hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi og er þar skemmst að minnast sögu sumra Breiðavíkurdrengjanna. Langflestir verða fyrir kynferðislegri misnotkun á barnsaldri en ljóst er að hvaða ofbeldi sem á í hlut eru það allt of margir sem hvorki kæra né leita sér hjálpar.



Það er líka rétt sem fram kemur í skýrslu UNICEF að hér skortir rannsóknir á kynferðisofbeldi gegn börnum, orsökum þess og afleiðingum. Afleiðingar kynferðisofbeldis eru mjög alvarlegar og sýna rannsóknir að þótt hægt sé að veita mikla hjálp eru sárin mjög djúp. Hér á landi er boðið upp á meðferð fyrir unga gerendur sem eru allt niður í 13 ára gamlir en bæta þarf í varðandi fyrirbyggjandi aðgerðir, t.d. að heimila rafrænt eftirlit með kynferðisbrotamönnum líkt og gert er t.d. í Danmörku.



Eitt af því sem þarf að rannsaka er hversu stór hluti öryrkja eru þolendur ofbeldis. Það vekur athygli að konur eru rúmlega 61% öryrkja. Það þýðir að það eru tæplega tvær konur á móti hverjum einum karli í röðum öryrkja. Hver er skýringin á þessu? Hversu margar þeirra hafa gengið frá Heródesi til Pílatusar í leit að réttri greiningu án þess að vera spurðar hvort þær hafi orðið fyrir einhvers konar ofbeldi á ævi sinni. Í fyrrnefndri könnun kom fram að 42% íslenskra kvenna hafa orðið fyrir einhvers konar ofbeldi á ævi sinni eftir 16 ára aldur. Það er því sannarlega ástæða til að tekin verði upp skimun fyrir ofbeldi á öllum stigum heilbrigðis- og félagsþjónustu.



Ýmis konar úrræði eru í boði fyrir þolendur kynbundins ofbeldis, svo sem neyðarmóttökur í Reykjavík og á Akureyri, Kvennaathvarfið, Stígamót, Aflið, Sólstafir, Blátt áfram, sími Rauða krossins og verkefnið Karlar til ábyrgðar sem býður körlum sem beita ofbeldi upp á meðferð. Betur má þó ef duga skal.



Að undanförnu höfum við verið minnt rækilega á að við búum í landi eldgosa. Þau eru þeim mönnum og málleysingjum sem fyrir verða afar erfið en þau kalla líka á þjóðarsamstöðu og samhug. Er ekki kominn tími til að efna til þjóðarsamstöðu gegn ofbeldi af öllu tagi? Við þessi 300.000 manna þjóð á eyju í Norður-Atlandshafi hljótum að geta kveðið ofbeldið niður, hvort sem það á sér stað á götum úti, í skúmaskotum eða það sem er algengast: inni á heimilum. Ekkert barn á að verða fyrir eða alast upp við ofbeldi.

Engin kona á að sæta líkamlegu, andlegu eða kynferðislegu ofbeldi.

Enginn karl á að verða fyrir eða beita ofbeldi. Það eru mannréttindi að búa við öryggi. Skerum upp herör gegn ofbeldismenningunni og ofbeldisdýrkuninni sem er allt í kringum okkur. Hingað og ekki lengra – efnum til þjóðarátaks gegn ofbeldinu. Drögum tjöldin frá.




Skoðun

Sjá meira


×