Skoðun

Kirkjugarðar og allt ruslið

Þorgeir Adamsson skrifar
Af samviskusemi og elju hafa starfsmenn Kirkjugarða Reykjavíkurprófastsdæma undanfarin misseri unnið að flokkun sorps. Flokkunin beinist fyrst og fremst að málmum, plasti, gleri, óendurvinnanlegum efnum og síðast en ekki síst lífrænum úrgangi.Einnig hefur rafhlöðum og kertavaxi verið komið í endurvinnslu. Undanfarin 11 ár hefur allur garðaúrgangur verið settur í jarðgerð sem fram fer á staðnum og moltan sem til verður er notuð í ræktun og umhirðu garðanna. Þótt rusl sé flokkað eftir bestu getu fylgir kannski ekki mikil ánægja allri vinnunni við verkin sjálf en árangurinn er mjög ánægjulegur.



Öll förgun á sorpi verður dýrari með hverju árinu og sorpfjöllin hlaðast upp á sorphaugum sveitarfélaganna. Tilmæli frá opinberum aðilum eru skýr: flokkun og endurvinnslu sorps verður að auka og förgun að minnka! Hjá kirkjugörðunum hafa á undanförnum misserum sparast umtalsverðir fjármunir með aukinni flokkun og endurvinnslu. En betur má ef duga skal.



Aðstandendur látinna sem koma í kirkjugarðana til að hirða um leiði ástvina og ættingja sinna hafa gjarnan meðferðis blóm, ýmsar skreytingar eða kerti sem nýtast þeim við að prýða leiði og heiðra minningu hins látna. Einnig hafa aðstandendur meðferðis ótrúlega mikið af allskonar umbúðum sem þeir þurfa að losa sig við.

Umbúðum og gömlum skreytingum sem áður hefur verið komið fyrir á leiðum er þá gjarnan kastað í ruslaílát í görðunum.

Mikilvægt er að aðstandendur leggi sitt af mörkum við flokkun úrgangs í görðunum. Til þess að það gangi eftir þurfa þeir helst að vera meðvitaðir um það hver tilgangurinn er með flokkuninni og að kynna sér þær merkingar sem eru á ílátum undir úrgang í görðunum. Einnig er mikilvægt að aðstandendur takmarki allt það magn af umbúðum sem þeir flytja með sér bara til þess eins að kasta í ruslið.



Þess ber að geta að vissulega eru margir þeirra sem koma í kirkjugarðana meðvitaðir um það hvernig flokkun úrgangs er háttað og eiga þeir þakkir skildar sem gera eins og ætlast er til.

Hér með er þeim vinsamlegu tilmælum beint til aðstandenda sem þurfa að losa sig við rusl í kirkjugörðunum að gera það samkvæmt merkingum á ílátum og umfram allt að takmarka allt umbúðafarganið. Hafa ber í huga að það að kasta rusli hefur kostnað í för með sér. Flokkum rusl!




Skoðun

Sjá meira


×