Skoðun

Tökum afstöðu og segjum já

Stefán Einar Stefánsson og Ásta Rut Jónasdóttir skrifar
Ásta Rut Jónasdóttir varaformaður VR
Nú stendur yfir atkvæðagreiðsla um kjarasamninga VR eftir langar og erfiðar samningaviðræður. Tekist var á af hörku um hvert atriði samninganna og á stundum virtist hvorki ganga né reka. Að okkar mati gengu Samtök atvinnulífsins, með útvegsmenn í broddi fylkingar, allt of langt í þeirri hugmyndafræði sem þeir byggðu á og vinnubrögðunum sem þeir beittu. Sveigjanleiki er aðall góðrar samningatækni, en lítið fór fyrir honum af þeirra hálfu. Undir vor var komið að því að brýna verkfallsvopnið sem legið hefur óhreyft af hálfu VR síðan árið 1988. Launþegar höfðu fengið nóg af yfirgangi atvinnurekenda og verkföll vofðu yfir.



Að lokum sættust aðilar á málalok og kjarasamningar eru komnir í höfn. Ástandið á vinnumarkaði er viðkvæmt og allir voru sammála um að brýnasta verkefnið væri að viðhalda stöðugleikanum og tryggja stöðu þeirra sem höllum fæti standa. Við fengum ekki allar okkar óskir uppfylltar með þessum kjarasamningum en með samþykkt þeirra leggjum við okkar af mörkum til að skapa betri lífskjör.

Samningarnir fela í sér talsverðar kjarabætur fyrir félagsmenn VR en ættu þó ekki að hleypa öllu verðlagi upp, ef rétt er á málum haldið. En það eru ekki bara launamenn sem að þessum samningum standa. Stjórnvöld þurfa að hleypa krafti í framkvæmdir og leggja sitt af mörkum til að liðka fyrir því að atvinnulífið blómstri. Atvinnurekendur þurfa að koma til móts við launþega með sameiginlegu átaki í atvinnumálum.



Helstu ávinningar nýrra samninga eru sem hér segir:

n Almennar launahækkanir á næstu þremur árum eru 11,4%. Eingreiðsla að upphæð 50.000 krónur kemur til útborgunar þegar samningarnir hafa verið samþykktir í atkvæðagreiðslu og aðrar 25.000 krónur í tveimur greiðslum síðar á árinu.

n Sérstök áhersla verður á hækkun lægstu launa og hækkar lágmarkstekjutrygging um allt að 23,6%.

n Persónuafsláttur verður verðtryggður frá og með næstu áramótum. Auk þess verður lagður grunnur að jöfnun lífeyrisréttinda landsmanna með markvissum hætti á árunum 2014-2020 en hér er um að ræða eitt mikilvægasta réttindamál launafólks um áratuga skeið.

n Blásið verður til sóknar í atvinnulífinu með það að markmiði að draga úr atvinnuleysi, m.a. með ýmsum aðgerðum til að treysta stöðu nýsköpunar og þekkingargreina og iðnaðar.

n Átak verður sett af stað í þjónustu við atvinnuleitendur á vegum stéttarfélaganna og lögð áhersla á að auka framboð á menntun bæði fyrir yngra fólk og þá sem komnir eru af skólaaldri.

n Atvinnuleysisbætur og bætur almannatrygginga fá hliðstæða hækkun og þeir sem eru á lægstu töxtum. Hækkun framlaga til Fæðingarorlofssjóðs og Ábyrgðarsjóðs launa tryggir launafólki rétt í fæðingarorlofi og launatap í gjaldþrotum fyrirtækja.



Með sameiginlegu átaki getum við unnið okkur út úr þeirri stöðu sem ríkt hefur í atvinnumálum og efnahagsmálum. Þeir samningar sem við göngum nú til kosninga um geta markað upphaf nýrra tíma, tíma stöðugleika og uppbyggingar í stað stöðnunar og niðurrifs. Þess vegna hvetjum við félagsmenn VR til að kynna sér efni samninganna og taka afstöðu í atkvæðagreiðslunni. Á heimasíðu félagsins, www.vr.is, má finna ítarlega umfjöllun um báða samninga félagsins en framtíð þeirra liggur í höndum okkar, félagsmanna VR.




Skoðun

Sjá meira


×