Viðskipti innlent

Segir höft halda gengi krónu óeðlilega lágu

Páll Harðarson forstjóri Kauphallar Íslands segist ekki vita til þess að mat hafi verið lagt á kostnað við gjaldeyrishöft hér á landi. „Það mat er þá vel falið í skúffu einhvers staðar,“ sagði hann á fundi í Valhöll í gær. Fréttablaðið/Valli
Páll Harðarson forstjóri Kauphallar Íslands segist ekki vita til þess að mat hafi verið lagt á kostnað við gjaldeyrishöft hér á landi. „Það mat er þá vel falið í skúffu einhvers staðar,“ sagði hann á fundi í Valhöll í gær. Fréttablaðið/Valli
Ótti við hrun krónunnar við afnám gjaldeyrishafta er ástæðulaus að mati Páls Harðarsonar, forstjóra Kauphallarinnar. Hann telur afnám haftanna líklegra til að ýta undir styrkingu gengisins en hitt.

 

Páll gagnrýnir harðlega áætlun Seðlabankans og stjórnvalda um afnám gjaldeyrishaftanna og segir skorta á rökstuðning fyrir nauðsyn haftanna. Hann flutti í gær erindi um höftin á opnum fundi Varðar, fulltrúaráðs sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík.

Páll bendir á að hagstærðir séu í flestum tilvikum hagstæðar og ættu fremur að ýta undir styrkingu gengis krónunnar en hitt. Þannig sé raungengi krónu fimmtungi undir meðaltali síðustu þrjátíu ára og helstu hagstærðir sýni að gengi hennar sé vanmetið, um það séu helstu hagfræðingar sammála.

 

„Höftin gætu haldið genginu óeðlilega lágu um langt skeið og þar með dregið úr kaupmætti almennings,“ segir hann og bendir á að gjaldeyrishöft hækki fjármagnskostnað þjóðarinnar, dragi úr tiltrú á hagkerfinu og takmarki aðgengi þjóðarinnar að fjármagni.

 

„Höftin endurspegla trú stjórnvalda á eigin verk,“ segir Páll og telur að afnám þeirra myndi leiða til hækkunar lánshæfismats landsins og flýta fyrir styrkingu gengis krónunnar. Þá bendir Páll á að viðvarandi gjaldeyrishöft og óskýr áætlun um afnám þeirra dragi úr aga við ákvarðanatöku vegna skorts á skýrum markmiðum til að stefna að. Þá skýli gjaldeyrishöft stjórnvöldum fyrir afleiðingum lélegra ákvarðana, verji atvinnulífið fyrir samkeppni og beini einkaaðilum úr arðbærum verkefnum í „rentusókn“.

Páll segir erfitt að meta kostnað við gjaldeyrishöftin, sem í sjálfu sér búi til hvata til að viðhalda þeim. „Á Austurvelli er enginn mælir sem tifar og sýnir hversu mörgum milljörðum þjóðarbúið verður af í hverjum mánuði.“

 

Aðferðafræðin um afnám haftanna krefst, að mati Páls, gagngerrar endurskoðunar, en áætlunin sem kynnt hafi verið um afnám hafta sé bæði svartsýn og lítt rökstudd. Undir það hafi meðal annars verið tekið í greiningu JP Morgan í aprílbyrjun. Þá segir hann veikt gengi á markaði með aflandskrónur ekki vera vísbendingu um gengisþróun krónunnar.

 

„Gjaldeyrishöftin halda aflandsgenginu lágu,“ segir Páll og telur að afnema megi gjaldeyrishöft á nokkrum mánuðum.

 

olikr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×