Viðskipti innlent

Metanbílar ýta undir sölutölur í flokki lúxusbifreiða

Á þessu ári fagnar Mercedes-Benz 125 ára afmæli, sem jafnframt er afmæli bílsins. Nordicphotos/AFP
Á þessu ári fagnar Mercedes-Benz 125 ára afmæli, sem jafnframt er afmæli bílsins. Nordicphotos/AFP
Sala lúxusbíla hefur þrefaldast milli ára að því er fram kemur í tölum Umferðarstofu um sölu nýrra bíla fyrstu fjóra mánuði ársins. Þá má sjá að heildarsala fólksbíla hefur meira en tvöfaldast þegar bornir eru saman mánuðirnir janúar til apríl árin 2010 og 2011.

Þegar horft er á einstakar tegundir má sjá að hlutdeild lúxusbíla í sölu hefur aukist í sölutölum milli ára. Fyrstu fjóra mánuði ársins 2010 var hlutur þeirra 5,5 prósent í heildarsölu ársins, en er á þessu ári tæp 7,4 prósent. Þó hefur fjöldi seldra lúxusbíla nær þrefaldast á milli ára á tímabilinu, fer úr 22 bílum í 61. Er þá horft til sölu nýrra bíla frá framleiðendunum Audi, BMW, Lexus, Mercedes-Benz og Porsche.

Af þessum tegundum er mest er selt af Mercedes-Benz bílum, en sala á þeim nemur rúmum helmingi heildarfjölda lúxusbílanna. Á árinu hafa verið skráðir 35 nýir Mercedes-Benz bílar, en á sama tíma í fyrra voru þeir átta talsins.

„Að hluta skýrir góðan árangur Mercedes-Benz að þeir bjóða mjög hagkvæma útgáfu af metanknúnum fólksbíl,“ segir Jón Trausti Ólafsson, framkvæmdastjóri bílaumboðsins Öskju. Hann segir að í sölu ársins séu fimmtán nýir metanfólksbílar, en það sé um 40 prósent af heildarsölu fólksbíla frá Mercedes-Benz á þessu ári. Þá sé aukin sala vísbending um að markaðurinn sé að taka við sér því salan hafi að megninu til verið til einstaklinga. „En síðan eru að koma á markað nýjar gerðir af stærri metanknúnum bílum, til dæmis E-Class sem hentar vel í leigubílarekstur,“ segir hann og kveðst afar ánægður með byrjunina á árinu.

olikr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×