Skoðun

Mýtan hrakin - skapandi greinar hafa ótvírætt hagrænt gildi

Anna Hildur Hildibrandsdóttir skrifar
Þriðjudaginn 3. maí nk. verður skýrsla sem nefndist „Hagræn áhrif skapandi greina" kynnt á málstofu í Háskóla Íslands. Þetta er tímamótaskýrsla þar sem skapandi greinar eru í fyrsta sinn skilgreindar á Íslandi sem atvinnuvegur með ótvírætt hagrænt gildi.

Hagræn áhrif af starfssemi skapandi greina hafa aldrei áður verið tekin saman. Af vanþekkingu hafa margir, þar á meðal sumir framámenn þjóðarinnar, búið til mýtu og fullyrt að listamenn séu afætur á samfélaginu. Sú mýta hefur nú verið hrakin.

Menning og listir gefa af sér verðmæti í víðum skilningi en í þessari skýrslu er einungis leitast við að leggja mat á efnahagsleg verðmæti, byggð á skilgreiningu sem Unesco, Menningarstofnun Sameinuðu þjóðanna, hefur innleitt.

Á undanförnum árum hefur mikið verið rætt og ritað um vöxt skapandi greina í heiminum. Í Grænbók Norrænu nýsköpunarmiðstöðvarinnar, sem gefin var út í lok árs 2007, er talað um hraðan vöxt í skapandi greinum og að í þeim fælist vaxtarsproti sem gefa beri gaum. Í Grænbók sem kom út á vegum Evrópusambandsins í apríl 2010 er atvinnuvegurinn skilgreindur sem „Culture and Creative Industries (CCI)" og jafnframt talað um að stefnumótandi aðilar þurfi að veita þessari atvinnugrein meiri athygli og skilning.

Umræðan á Íslandi hefur þróast í eðlilegu samhengi við þetta. Keðjuverkandi áhrif leikjagerðar, kvikmyndaframleiðslu, ritstarfa, sviðslista, tónlistar, hönnunar og myndlistar, mega nú vera öllum ljós.

Skapandi greinar á Íslandi velta að minnsta kosti 189 milljörðum króna á ári. Með þessar upplýsingar í farteskinu vitum við að skapandi greinar eru einn stærsti atvinnuvegur þjóðarinnar og verðskuldar athygli og skilning í framtíðar atvinnuuppbyggingu á Íslandi. Það er brýnt að vel verði haldið utan um áframhaldandi mælingar. Stefnumótun í atvinnu- og menntamálum þarf að skoða í samhengi við þann styrk sem hlýst af því að Íslendingar eru skapandi þjóð og allar skapandi greinar eru mikilvægir hlekkir í þeirri keðju.




Skoðun

Sjá meira


×