Skoðun

ÍTR slátrað!

Geir Sveinsson skrifar
Í síðustu viku á fundi borgarstjórnar var samþykkt að slíta í sundur starfsemi Íþrótta- og tómstundasviðs Reykjavíkur, ÍTR. Ástæðan er fyrirhugaður flutningur á starfsemi tómstunda í nýtt sameinað ráð skóla- og frístundamála. Ekki ætla ég að mæla gegn breytingum á stjórnkerfinu sem einfalda hugsanlega rekstur þess og stjórnsýslu, svo ég tali nú ekki um ef um skynsamlegar breytingar er að ræða. En þegar breytingarnar eru gerðar með þeim hætti sem hér um ræðir get ég ekki orða bundist. Hlutirnir keyrðir í gegn án nokkurrar faglegrar umræðu og á einungis fjórum sólarhringum eftir að tillagan um að kljúfa ÍTR í herðar niður hafði verið kynnt í fyrsta skipti var búið að samþykkja tillöguna í borgarráði og daginn eftir í borgarstjórn.

Eftir sitja um 1.100 starfsmenn sviðsins sem vita í raun ekkert hvað til stendur og þurfa að bíða í óvissu þangað til meirihlutinn hefur áttað sig sjálfur á þeim breytingum sem fyrirhugaðar eru. Hvað fylgir hverju, hvað á að vera hvar og hverjir fara hvert.

Ekki ein einasta umræða eða fagleg vinna átti sér stað í ÍTR að frumkvæði meirihlutans um fyrirhugaðar breytingar og ekki minnsti vottur af einhverjum áhuga á að eiga eitthvert samráð, samræður eða yfir höfuð gefa minnihlutanum færi á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri. Ekkert.

Minnihlutinn óskaði eftir aukafundi til að ræða þessar fyrirhuguðu breytingar og fengum við fund einungis klukkustund áður en afgreiða átti tillöguna í borgarráði. Á þessum aukafundi var okkur tjáð að málið væri allt á umræðustigi og ekki stæði til að keyra breytingarnar í gegn í borgarráði.

En viti menn, tæpum tveimur tímum síðar var búið að afgreiða málið í borgarráði. Meirihlutinn í ÍTR hafði ekki einu sinni haft kjark til að koma fram af hreinskilni gagnvart minnihlutanum í þessu máli og ræða stöðuna eins og hún var og hvað til stæði.

Besti flokkurinn og Samfylking keyrðu því þessar breytingar í gegn án allrar umræðu. Þetta fólk sem sagði okkur fyrir síðustu kosningar að það væri riddarar nýrra og bættra vinnubragða í stjórnmálum. Þetta hlýtur bara að hafa verið partur af öllu gríninu. Því ömurlegri vinnubrögðum hef ég ekki kynnst á mínum ferli.

Ef einhver skemmdaverk hafa verið framin þá eru það þær breytingar sem meirihlutinn fyrirhugar á ÍTR. Það er verið að kljúfa í herðar niður flaggskip Reykjavíkurborgar, ÍTR, það svið sem í hugum almennings skorar hæst í öllum könnunum og er að skila frábæru starfi og þjónustu til borgabúa. Vörumerkið, ÍTR, sem er eitt sterkasta „brand“ borgarinnar, á að leggja niður og ástæðan er óljós.

Þetta er sorgleg málsmeðferð. En sorglegust er auðvitað frammistaða fulltrúa Besta flokks og Samfylkingar í ÍTR sem ekki einu sinni lyftu litla fingri til að verja hið góða starf sem starfsfólk ÍTR hefur verið að vinna og er nú komið í uppnám. ÍTR var einfaldlega slátrað í skjóli nætur.




Skoðun

Sjá meira


×