Skoðun

Samningslaus í 25 mánuði

Elsa B. Friðfinnsdóttir skrifar
Hið nýja stjórnvald hér á landi, Samtök atvinnulífsins (SA), hefur verið sakað um að taka launamenn á almennum vinnumarkaði í gíslingu til að knýja ríkisstjórnina til hlýðni í sjávarútvegsmálum. Gíslatakan er reyndar víðtækari því að á meðan ekki hefur samist á almennum vinnumarkaði hefur Samninganefnd ríkisins (SNR) haldið að sér höndum og ekki átt í neinum alvöru kjaraviðræðum við stéttarfélög opinberra starfsmanna. Flestir kjarasamningar á opinbera markaðnum hafa verið lausir misserum saman og opinberir starfsmenn þannig einnig í gíslingu SA.

Kjarasamningar Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga (FÍH) við fjármálaráðherra f.h. ríkissjóðs runnu út fyrir 25 mánuðum, 760 dögum. Hjúkrunarfræðingar hafa ekki fengið kjarasamningsbundnar hækkanir í 33 mánuði eða frá júlí 2008. Á þessum tíma hefur kjararýrnun almennt verið um 12%. Verulega hefur verið þrengt að starfsumhverfi, starfsöryggi og starfskjörum hjúkrunarfræðinga. Ekki er ráðið í störf sem losna og álag í starfi hefur aukist mikið. Samninganefnd FÍH hefur fundað reglulega með SNR og lagt fram ýmsar hugmyndir að nýjum kjarasamningi. SNR hefur hins vegar ekki brugðist við með neinum tillögum eða hugmyndum að mögulegum samningi og hefur hafnað hugmyndum samninganefndar FÍH án skoðunar. Það hefur sannarlega hvarflað að manni á samningafundunum að betra væri að ræða bara beint við SA því engu er líkara en þau samtök séu hinn raunverulegi samningsaðili opinberra starfsmanna.

Það er auðvitað með öllu óþolandi að ríkisvaldið skuli ekki koma fram við stéttarfélög opinberra starfsmanna sem alvöru samningsaðila. Nú þegar uppstytta hefur orðið í kjarasamningum á almennum markaði og 26. samningslausi mánuðurinn fer að hefjast krefjast hjúkrunarfræðingar þess að samningsréttur FÍH sé virtur og að SNR verði falið að ganga frá kjarasamningum við félagið. Langlundargeð hjúkrunarfræðinga er á þrotum.




Skoðun

Sjá meira


×