Skoðun

Eitt öflugt slökkvilið

Ó. Ingi Tómasson aðalvarðstjóri Keflavíkurflugvelli
Við stofnun Slökkviliðs Höfuðborgarsvæðisins bs. (SHS) þann 1. júní árið 2000 urðu ákveðin kaflaskil í rekstri slökkviliða á Íslandi. Slökkvilið Reykjavíkur ásamt Slökkviliði Hafnarfjarðar runnu í eitt og úr varð öflugt og vel rekið slökkvilið sem þjónar höfuðborgarsvæðinu af miklum myndarskap og veitir íbúum nú ákveðna öryggiskennd vitandi um þá þjónustu sem SHS veitir.

Við brotthvarf Varnarliðsins 1. okt. 2006 varð eftir ákveðin óvissa um skyldur slökkviliða á Suðurnesjum er varða gamla varnarsvæðið og Keflavíkurflugvöll. Við og á flugvellinum eru rekin þrjú slökkvilið, Slökkvilið Keflavíkurflugvallar, Brunavarnir Suðurnesja (BS) og Slökkvilið Sandgerðis.

Aukið flækjustig
Jón E. Árnason varðstjóri Keflavíkurflugvelli
Þar til nýverið sá Slökkvilið Keflavíkurflugvallar alfarið um alla slökkvi- og björgunarþjónustu á flugvellinum þ.e. allar byggingar og flugvélar auk viðbúnaðar vegna eiturefnaslysa.

Eins og nú háttar, eiga þrjú áðurgreind slökkvilið að sjá um þessa þjónustu. Slökkvilið Keflavíkurflugvallar á að sjá um flugslys og eld í flugvélum jafnt utan sem innandyra. BS á að sjá um allar byggingar á eystra svæði flugvallarins jafnt flugskýli sem aðrar byggingar og Slökkvilið Sandgerðis á að sjá um allar byggingar og flugskýli vestan til á flugvellinum. Komið er upp allnokkurt flækjustig er varðar útköll og boðun slökkviliða í byggingar á flugvellinum og má þar nefna eftirfarandi:

Verði eldur í flugskýli á Keflavíkurflugvelli mun BS verða boðað, Slökkvistöð BS er staðsett í Keflavík. Sé hins vegar flugvél inni í áðurnefndu flugskýli, ber Slökkviliði Keflavíkurflugvallar að mæta og slökkva í flugvélinni og þá er þetta væntanlega spurning hvort greinarmunur sé gerður í brunaboði frá flugskýli með og án flugvélar, þetta á reyndar við öll flugskýli á flugvellinum.

Sama er að segja um t.d. flugturninn á Keflavíkurflugvelli, komi brunaboð frá flugturni, þá fer slökkviliðsmaður frá Slökkviliði Keflavíkurflugvallar og athugar hvort um bilun í kerfi sé að ræða, sé hinsvegar eldur í byggingunni þá hringir slökkvilið flugvallarins sem staðsett er steinsnar frá flugturni, í BS sem kemur frá Keflavík og sér um að slökkva eldinn. Allur þessi hrærigrautur leiðir til óvissu og ómarkvissra viðbragða.

Óvissa sem hefur verið í kringum slökkvilið Keflavíkurflugvallar með kröfu Isavia ohf. um að slökkvilið flugvallarins verði í raun lagt niður í núverandi mynd og einskonar viðbúnaðarþjónusta komi í staðinn, er einungis til þess fallin að auka á þá ringulreið sem er nú þegar í slökkvi- og björgunarþjónustu flugvallarins.

Sameinaðir kraftarMeð reynslu af stofnun SHS í huga þá er það skoðun okkar og margra annarra, að sveitarfélögin og stjórnvöld sem eiga hlut að máli komi að þessu með sambærilegum hætti og gert var þegar SHS var stofnað og sameini krafta allra slökkviliða á áðurnefndum svæðum.

Hugmyndir sem settar voru fram á árunum 2005-2006 um eitt öflugt slökkvilið höfuðborgarsvæðis-Suðurnesja-Selfoss-Akraness, eiga fyllilega rétt á sér nú á tímum samdráttar og sparnaðar.

Fjárhagslegur og faglegur ávinningur af einu öflugu slökkviliði er ótvíræður.

Fjárhagslegur ávinningur felst m.a. í samlegð á tækjum og mannafla. Faglegur ávinningur mun m.a. skila sér í nánari samhæfingu í þjálfun og öflugra og markvissara viðbragðs á öllu svæðinu.




Skoðun

Sjá meira


×