Skoðun

Rétt skal vera rétt

Eiríkur Björn Björgvinsson skrifar
Vegna fréttar á bls. 2 í Fréttablaðinu 26. apríl sl. um tilboð í uppsteypu og utanhússfrágang Naustaskóla, 2. áfanga, finn ég mig knúinn til að koma eftirfarandi á framfæri.

Við meðferð útboðsmála hjá sveitarfélögum og ríkinu er viðtekinn háttur að yfirfara gaumgæfilega hagstæðustu tilboð til að ganga úr skugga um að allir útreikningar standist. Í lýsingu útboða kemur skýrt fram að ef skekkjur finnast í tilboðsskrá skal gera viðeigandi leiðréttingar á niðurstöðutölum tilboðs. Í öllum tilvikum, hvort sem um hækkun eða lækkun er að ræða, ber að benda á viðkomandi reikningsskekkju og taka tillit til hennar.

Í útboðslýsingum er ennfremur gerð krafa um að bjóðendur skili ársreikningum síðustu tveggja ára, árituðum af endurskoðanda, og að bjóðendur séu ekki í vanskilum með opinber gjöld eða lífeyrissjóðsgjöld starfsmanna sinna. Skilyrði um fjárhagsstöðu bjóðenda eru sett fram til að tryggja fjárhagslega hagsmuni verksins, að verktaki sem samið er við hafi fjárhagslega burði til að klára verkið og til að gæta jafnræðis meðal bjóðenda.

Við yfirferð útboða vegna framkvæmda við Naustaskóla á Akureyri, 2. áfanga, kom í ljós skekkja í tilboði SS Byggis ehf. sem lækkaði tilboðsfjárhæð um tæpar 84 milljónir króna og gerði það að næstlægsta tilboði. Einnig varð ljóst að bjóðandinn Hamarsfell ehf./Adakris UAB, sem átti lægsta tilboð í verkið, uppfyllti ekki ofangreind skilyrði um skil á ársreikningum og opinberum gjöldum.

Af þessum ástæðum var einboðið að taka næstlægsta tilboði.

Af sömu ástæðum er fráleitt að halda því fram að verið sé að hygla heimamönnum með einhverjum hætti.

Vísa má til fjölmargra dæma um að stórir verktakar annars staðar af landinu hafi, að undangengnu útboði, fengið umfangsmikil verkefni í byggingariðnaði á Akureyri. Má í því sambandi benda á hlut verktakans Ístaks hf. við byggingu Menningarhússins Hofs.

Lögbannsbeiðni Hamarsfells ehf./Adakris UAB gegn Fasteignum Akureyrarbæjar vegna málsins hefur verið vísað frá.




Skoðun

Sjá meira


×