Skoðun

Akureyri og Naustaskóli lífsins

Jón Ármann Steinsson skrifar
Bæjarstjórn ákveður að byggja skóla og heldur útboð sem er auglýst í heimabyggð og á ensku á EES-svæðinu. Byggingafyrirtæki í Reykjavík og á Akureyri bjóða í verkið og fyrirtæki að sunnan á lægsta boð. Þá hefst reikniferli og bírókratapælingar á bæjarskrifstofunum sem enda með því að fyrirtæki heimamanna fær verkið. Bæjarstjórnin andar léttar og uppvakningur byggðastefnu svífur yfir pollinum…

Hljómar þetta eins og gamla Ísland? Er þetta pólitík venslahagsmuna í smábæ úti á landi? Getum við lært eitthvað nýtt af þessu? Er hér tækifæri til að efla traust almennings á stjórnkerfinu? Eða er komið tilefni til að missa traustið endanlega?

Sá sem átti lægsta tilboð í byggingu Naustaskóla er Hamarsfell ehf. úr Reykjavík. Þar á bæ fannst mönnum eitthvað loðið við atburðarásina og málið fann sér farveg í fjölmiðla. Bæjarstjóri Akureyrar varð fyrir svörum og sagði allt „eðlilegt" við framvinduna. Vandinn, að hans mati, lá hjá verktakanum fyrir sunnan.

Eðlilegt? Er eðlilegt að bæjarstarfsmenn endurreikni tilboð heimamanna og finni 84 milljón króna samlagningarvillu? Er eðlilegt að bæjarstjórnin setji fyrir sig hvort ársreikningur bjóðanda sé áritaður eða undirritaður af endurskoðanda? Er eðlilegt að Akureyrarbær beri fyrir sig gjaldskilareglur Tollstjóra árið 2011 þegar þær stangast á við lög 24/2010, þ.e. lög sem reglurnar ættu að falla undir?

Lög 24/2010 voru sett eftir hrun þegar 90% byggingafyrirtækja fóru á hausinn. Fyrirtækjum sem lifðu af hrunið bauðst að fresta greiðslu opinberra gjalda og greiða með fimm ára vaxtalausu skuldabréfi. Við þáðum boðið. En annaðhvort hafa hæstvirtir alþingismenn klúðrað lagasetningunni eða starfsmenn Akureyrarbæjar ekki skilið lögin. Varla hafði Alþingi í huga að Tollstjóri myndi skrá sömu upphæð sem „skuld" í dálk X en „í skilum" í dálk Y vitandi að enginn sem er í „skuld" geti unnið fyrir ríki og sveitarfélög?

Eru reglugerðir og verklagsreglur embættismanna æðri en lög? Hérna eru ríki og sveitarfélög í ósamstígum dansi og hjálparmeðul atvinnulífsins því engum til gagns. Opinberir verkkaupar vita um þetta misræmi og skilja hver andi laga 24/2010 er – nema ekki á Akureyri. Að benda á reglugerðarflækjur fyrir sunnan var útleið bæjarins þegar „leiðrétting" á 84 milljóna króna „samlagningarvillu" í tilboði heimamanna dugði ekki til.




Skoðun

Sjá meira


×