Skoðun

Foreldrastarf mikilvægasta starfið?

Sjöfn Þórðardóttir skrifar
Allar rannsóknir sem gerðar hafa verið á foreldrasamstarfi sýna að samstarf foreldra og skóla hefur alltaf jákvæð áhrif. Ávinningur samstarfs felst m.a. í betri líðan barna í skólanum, meiri áhuga og bættum námsárangri, auknu sjálfstrausti nemenda, betri ástundun og minna brottfalli, jákvæðari viðhorfum foreldra og nemenda til skólans og ekki síst forvarnagildi og samstöðu gegn hópþrýstingi. Samstarf heimila og skóla er verðmæt eign sem við eigum að gæta vel.

Foreldraverðlaun Heimilis og skóla – landssamtaka foreldra verða veitt hinn 24. maí nk. í 16. sinn við hátíðlega athöfn í Þjóðmenningarhúsinu. Með þessari verðlaunaafhendingu vilja Heimili og skóli vekja jákvæða athygli á því gróskumikla starfi sem fram fer í leik,- grunn- og framhaldsskólum landsins og nærumhverfi þeirra. Starf þetta stuðlar að öflugu samstarfi heimila og skóla og samfélagsins. Foreldraverðlaunin eru fastur liður í starfsemi Heimilis og skóla og á vorin ríkir mikil eftirvænting þegar okkur berast tilnefningar um fjölmörg áhugaverð verkefni sem sýna hve gott starf er unnið í skólum landsins og nærsamfélaginu.

Heimili og skóli vilja hvetja sveitarstjórnarmenn og stjórnendur fyrirtækja og stofnana til að gefa starfsfólki sínu svigrúm til að sinna skólagöngu barna sinna og taka þátt í því að vekja athygli á því sem vel er gert. Samtökin vilja hvetja alla til að vinna að fjölskylduvænni starfsmannastefnu og er það allra hagur ef vel tekst til.

Óskað er eftir tilnefningum þar sem vakin er athygli á einstaklingum, sveitarfélögum, fyrirtækjum, félögum eða skólum sem stuðlað hafa að árangursríkum leiðum til að efla samstarf foreldra, kennara og annarra sem koma að uppeldi barna og ungmenna. Einnig þar sem komið hefur verið á jákvæðum hefðum í samstarfi heimila og skóla og unnið að því að brúa bilið á milli foreldra, kennara og nemenda.

Verkefnið sem tilnefnt er verður að hafa skýran tilgang og hafa sýnt fram á varanleika. Sérstök dómnefnd mun velja verkefni til verðlauna sem uppfylla eitt eða fleiri af ofantöldum viðmiðum og eru í samræmi við skilyrðin sem fram hafa komið.

Ég vil hvetja ykkur til að skoða skólasamfélagið ykkar sem og nærsamfélagið og tilnefna þá aðila til foreldraverðlauna árið 2011 sem ykkur finnst hafa lagt þessum málum lið og sem hafa eflt samstarf heimila, skóla og nærsamfélagsins á einhvern hátt. Hægt er að senda inn tilnefningar á rafrænan hátt með því að fara inn á heimasíðu samtakanna www.heimiliogskoli.is og fylla út eyðublað þar. Síðasti skiladagur tilnefninga er 28. apríl.

Í foreldrasamfélaginu er mannauður sem okkur er skylt að virkja og ekki síst í árferði sem þessu. Við þurfum öll að standa saman og standa vörð um lífsgæði barna okkar, stuðla að því að efla fjölskyldugildin og auka gæði samveru fjölskyldunnar. Mikilvægt er að horfa til þeirra tækifæra sem bjóðast í samfélaginu til að styrkja gömlu góðu gildin og leyfa mannauðnum að njóta sín.




Skoðun

Sjá meira


×