Skoðun

Fyrirmyndarþjóðin

Fyrir nokkrum árum voru Íslendingar fyrirmynd annarra þjóða. Allt stóð í blóma. Djarfir athafnamenn fóru á kostum á alþjóðlegum fjármálamörkuðum og sýndu hvers megnugir afkomendur stoltra víkinga voru í viðskiptum. Og það var bara forsmekkurinn af því sem í vændum var, sögðu menn. Ísland skyldi verða alþjóðleg fjármálamiðstöð og peningum bókstaflega rigna yfir landslýð. Hér var allt svo frjálst og gott og því óþarfi að læra af öðrum þjóðum, allra síst Norðurlandabúum.



Við sváfum á verðinum og létum blekkjast, mörg hver. Illu heilli. Því svo varð hrun.

En þegar neyðin er stærst er hjálpin næst. Nú „hefur Ísland tekið forystu meðal þjóða heims í baráttu fólks gegn alþjóðlegum fjármálamörkuðum“, segir Styrmir Gunnarsson, fyrrverandi ritstjóri Morgunblaðsins. „Nú verður horft til Íslands sem fyrirmyndar“, skrifar hann, nú sýnum við heiminum hvernig á að meðhöndla ágjarna, erlenda fjárplógsmenn. „Afkomendur þeirra, sem fyrir ellefu hundruð árum vildu ekki láta kúga sig í Noregi hafa sýnt hverrar gerðar þeir eru.“



Alltaf fremstir og til fyrirmyndar. Alltaf sér á báti, alveg einstakir. Hinn frjálsi og sjálfstæði Íslendingur lætur enn á ný finna fyrir sér, líkt og hann gerði fyrir ellefu hundruð árum. Líkt og hann gerði í góðærinu mikla á fyrstu árum 21. aldar. Nú snúum við vörn í sókn og ekkert fær stöðvað þjóðina. Enda eru vanir menn í fararbroddi. Í erlendu viðskiptablaði skrifar íslenskur stjórnmálafræðingur að úrslitin í þjóðaratkvæðagreiðslunni um Icesave þýði að tveir stjórnmálamenn, öðrum fremur, hafi styrkt stöðu sína: Ólafur Ragnar Grímsson og Davíð Oddsson. Ferskir og flekklausir.



Nýtt Ísland?




Skoðun

Sjá meira


×