Skoðun

Orðfæri Frá degi til dags

Höskuldur Þór Þórhallsson skrifar
Að gefnu tilefni tel ég nauðsynlegt að leiðrétta örstutta lýsingu á viðhorfum mínum til vantraustsyfirlýsingar Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfsstæðisflokksins sem birtist í Fréttablaðinu sl. föstudag í dálkinum „Frá degi til dags". Var þar gefið í skyn að ég hefði orðið tvísaga og „segði eitt í dag en annað á morgun". Þannig var tekið orðrétt úr fyrri ræðu minni eftirfarandi ræðubútur „Væri þá ekki réttast, í ljósi þess að ég treysti ekki ríkisstjórninni, að hér kæmi fram vantraustsyfirlýsing ... . Hinn eðlilegi farvegur slíkrar tillögu væri að hún kæmi frá formanni stærsta stjórnarandstöðuflokksins á Alþingi og ég fagna því að hún er nú komin fram. Hún verður að koma úr þeirri átt til að mark sé á henni takandi." Var svo tekið fram að daginn eftir hefði verið komið annað hljóð í strokkinn. Ég hefði þá sagt að nú væri grunnur hennar veikur þar sem það var Sjálfstæðisflokkurinn sem lagði hana fram en hann hefði að meginstofni til, fylgt ríkisstjórninni að málum í Icesave.



Ef fréttamaðurinn hefði lesið orlítið lengra úr fyrri ræðu minni sem hann birti ofangreindan texta orðrétt upp úr hefði hann séð að næsta setning á eftir setti þetta allt í samhengi. Þar sagði ég nefnilega um tillöguna „ Ég verð samt að viðurkenna að á henni er einn stór og mikill galli, ríkisstjórnin situr nú í skjóli þeirra sem sögðu já við Icesave-samningunum á Íslandi."



Þessi setning, sem fréttamanninnum yfirsást, er grunnurinn að þeirri skoðun minni að vantrauststillaga Sjálfstæðismanna væri veik. Sérstaklega í ljósi þess að hún kom ekki bara fram í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave heldur einnig í umræðum um niðurstöðu hennar. Í því ljósi mat ég einnig tímasetningu hennar með öllu ótímabæra, „vegna þess að ef menn hefðu beðið, andað með nefinu, tel ég að það hefði verið hægt að leggja fram síðar á þessu þingi vantrauststillögu sem hefði getað leitt til þess að ríkisstjórnin hefði farið frá völdum" eins og ég tók fram í seinni ræðu minni.



Þessi skoðun mín hefði líka ekki átt að koma á óvart vegna þess að hún kom einnig fram í frétt sem birtist á netmiðlinum visir.is strax á eftir ræðunni um niðurstöðu Icesave þjóðaratkvæðagreiðslunnar en þar segir „Í samtali við Fréttastofu segir Höskuldur að eðlilegra hefði verið að vantrauststillagan hefði komið frá öllum minnihlutanum en ekki bara frá Sjálfstæðismönnum, „til þess að þetta líti ekki út eins og menn séu að bjarga eigin skinni," segir Höskuldur og bætir við að sér finnist algjörlega ótímabært að leggja hana fram á þessu stigi málsins."



Í stuttu máli. Þrátt fyrir að ég fagnaði vantrauststillögunni benti ég strax á að grunnur hennar væri veikur. Sérstaklega í ljósi þess að hún kom fram í umræðu um Icesave þjóðaratkvæðagreiðsluna. Í því ljósi væri hún ótímabær auk þess sem vinna hefði mátt henni meira fylgis þannig að raunverulega væri hægt að koma ríkisstjórninni frá. Þetta er í mínum huga ekki að segja eitt í dag og annað á morgun eins og orðfæri greinarhöfundar frá Degi til dags gaf til kynna.




Skoðun

Sjá meira


×