Skoðun

Vanþekking VG eða virðingarleysi Samfylkingarinnar?

Ragnheiður Elín Árnadóttir skrifar
Línurnar eru skýrar þegar NATO tekur ákvörðun um hernaðaraðgerðir. Annað hvort styðja öll ríkin þær, eða ekkert verður af aðgerðum á ábyrgð aðildarríkja bandalagsins. Það eru engir aðrir valkostir í boði við það borð. Því er allt tal formanns Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs um ekki-stuðning en þó ekki-höfnun hjákátlegt. Með höfnun hefðu vinstri grænir getað beitt neitunarvaldi og komið í veg fyrir að þessi ákvörðun væri tekin – en þeir gerðu það ekki.

Hvernig tók ríkisstjórnin ákvörðun?Utanríkisráðherra, Össur Skarphéðinsson sagði á fundi utanríkismálanefndar að hann hefði haft óskorað umboð til að styðja að Atlantshafsbandalagið tæki yfir stjórn hernaðaraðgerða í Líbýu. Frá þessu hafa fjölmiðlar sagt, sem og viðbrögðum formanns vinstri grænna, sem á Alþingi, mánudaginn 28. mars sagði, spurður um hvort flokkurinn styddi þá sömu ákvörðun: „Nei, við gerum það ekki enda vorum við ekki spurð.“

Það liggur sem sagt fyrir að þegar Norður-Atlantshafsráðið, NATO, tók ákvörðun sunnudaginn 27. mars um að taka yfir stjórn hernaðaraðgerða í Líbýu lét utanríkisráðherra samþykkja ákvörðunina án þess að bera hana undir samstarfsflokkinn, vinstri græn, sem var og er andvígur loftárásunum. Umræður utan dagskrár á Alþingi voru nægilegt umboð fyrir utanríkisráðherra eftir því sem hann sjálfur segir í Fréttablaðsgrein þann 7. apríl.

„Nei, við gerum það ekki enda vorum við ekki spurð,“ sagði Steingrímur Joð.



Þar með var vinstri grænum neitað um þann möguleika að ríkisstjórnin beitti neitunarvaldi í Norður-Atlantshafsráðinu sem hefði komið í veg fyrir að bandalagið tæki að sér stjórn hernaðaraðgerðanna. Hvert bandalagsríki NATO hefur klárt neitunarvald. Þannig vinnur NATO. Vinstri græn hefðu getað haft söguleg áhrif á utanríkisstefnu bandalagsins og komið stefnu sinni á alheimskortið.

En þau voru ekki spurð.

Um leið er ljóst að Samfylkingin hefur gert Vinstri græn ábyrg fyrir hernaðaraðgerðum NATO í Líbýu, án þeirra samþykkis og gegn vilja þeirra.

Og hvernig fór það fram hjá Steingrími?Það er svo sjálfsagt rannsóknarefni hvernig aðdragandinn að þessari ákvörðun gat farið fram hjá bæði formanni Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs og formanni utanríkismálanefndar úr sama flokki sem virtust koma algerlega af fjöllum. Þó átti ákvörðunin sér talsverðan aðdraganda og var til umfjöllunar í fjölmiðlum út um allan heim í marga daga. Spurningin er því kannski frekar þessi - sváfu forystumenn VG viljandi á verðinum til þess eins að bjarga ríkisstjórninni frá enn einu ágreiningsmálinu eða gerðu þeir sig seka um yfirgripsmikið þekkingarleysi af áður óþekktu stigi á því hvernig ákvarðanir eru teknar á vettvangi NATO?

Ábyrgðin er skýrHvorug skýringin, sem forystumenn vinstri grænna kjósa að nota, firrir þá ábyrgð. Þegar ákvörðunin var tekin á vettvangi bandalagsins átti ríkisstjórn Íslands sæti við borðið. Og ríkisstjórn Íslands átti tvo valkosti – að styðja þessa ákvörðun eða hafna henni. Það eru engir aðrir valkostir í boði við það borð. Með höfnun hefðu vinstri grænir getað beitt neitunarvaldi og komið í veg fyrir að þessi ákvörðun væri tekin – en þeir gerðu það ekki.



Það er beinlínis hallærislegt að koma svo eftir á og segjast vera á móti stríði og hernaðarbandalögum til þess að tala inn í hóp hernaðarandstæðinga í flokknum. Enda benda fréttir af félagsfundum VG til þess að sá hópur sé ekki heldur að kaupa þær afsakanir. Staðreyndin er sú að í ríkisstjórn með Samfylkingunni hafa vinstri grænir gefist upp á því að reyna að setja sitt mark á utanríkisstefnu Íslands. Og Samfylkingin veit það og telur sig ekki þurfa að ræða þessi mál lengur við samstarfsflokkinn. Það er alfarið þeirra mál, en væri ekki heiðarlegra að viðurkenna það bara?




Skoðun

Sjá meira


×