Skoðun

Er fátækt á meðal einstæðra foreldra á Íslandi í dag?

Oktavía Guðmundsdóttir skrifar
Fátækt er oftast tilkomin vegna þjóðfélagslegs vanda, atvinnuleysis, láglaunastarfa eða of lágra bótagreiðslna. Það vill stundum gleymast í dagsins önn að einstæðir foreldrar með börn hafa einungis einar ráðstöfunartekjur. Þær tekjur eru misjafnar, allt frá því að teljast góðar tekjur til mjög lágra tekna, sem eru mun lægri en nýleg lágmarksframfærsluviðmið.



Þeir foreldrar sem leita sér ráðgjafar hjá Félagi einstæðra foreldra hafa sumir hverjir ágætis fjárhag og búa við öryggi. Það eru samt sem áður mun fleiri sem eru að basla í lífsins ólgusjó, með börn á öllum aldursskeiðum, með tekjur sem duga skammt fram á veginn. Þeir hinir sömu tóku ekki þátt í lífsgæðakapphlaupinu, þegar þenslan fór um samfélagið á ógnarhraða.



Þeir sem eru verst settir eru ungir einstæðir foreldra með eitt barn eða fleiri, sem hafa ekki aflað sér menntunar og lifa af einföldum verkamannalaunum, atvinnuleysisbótum eða annars konar bótagreiðslum.



Fjöldi einstæðra foreldra á Íslandi í dag og eignir þeirra miðað við aðra.

Um helmingur einstæðra foreldra á Íslandi býr í leiguhúsnæði en 20% annarra fjölskyldna eru á leigumarkaði.

Einstæðir foreldrar á Íslandi árið 2010 eru 10.702 (samkv. tölum frá Hafstofu Íslands).

Börn sem skráð eru á heimilum einstæðra foreldra 2010 eru 14.401.

Fjöldi einstæðra foreldra í leiguhúsnæði er 5.122 á móti 5.580 sem búa í eigin húsnæði.



Önnur heimili í eigin húsnæði eru 88.430 og 22.598 í leiguhúsnæði.

Þarna er vísbending um að eignarstaða einstæðra foreldra sé rýr miðað við aðra. Einnig er vitað að einstæðir foreldrar með börn sem leigja á frjálsum markaði búa ekki við sama öryggi og fjölskyldur sem búa í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði á vegum sveitarfélaga.

Foreldar af báðum kynjum sem misstu atvinnu – viðbrögð þeirraNeyðin hefur breitt hratt úr sér eftir hrun og hitt marga fyrir á ferð sinni.

Til að nefna dæmi segi ég hér á eftir frá ólíkum einstaklingum, einstæðum föður og einstæðri móður. Þau áttu það sameiginlegt að búa ein með börn sín og að hafa misst atvinnu eftir nokkurra ára starf. Það reyndist báðum foreldrunum mikið áfall og breytti miklu bæði fjárhagslega og heilsufarslega. Höfnunin reyndist nístingssár. Áhyggjurnar og óvissan sem var fram undan tóku sér fljótlega bólfestu í huga foreldranna. Hinir daglega skorðuðu lífshættir hurfu eins og dögg fyrir sólu.



Foreldrarnir brugðust við breyttum aðstæðum á mismunandi hátt. Annað foreldrið sagði upp leiguhúsnæði sínu eftir þriggja mánaða atvinnuleysi og flutti með barnið sitt í eitt leiguherbergi, þar sem ekki voru lengur peningar fyrir íbúðinni.



Hitt foreldrið ákvað að spara í matarinnkaupum og skera nánast allt mögulegt burtu til þess að geta haldið húsnæðinu. Sameiginlegt hjá báðum var að þau leituðu allra leiða til að komast aftur út á vinnumarkaðinn og nýttu sér það sem í boði var hjá Rauða krossi Íslands, Vinnumálastofnun og annars staðar. Það var ekki auðvelt, því atvinnuleysið olli streitu og andlegri vanlíðan.

Höfnunin var einna verst meðan á atvinnuleitinni stóð, því ýmist barst ekki svar eða þetta klassíska „þakka þér fyrir að sýna áhuga en því miður hefur staðan verið veitt öðrum“.



Allt gekk upp að lokum, því bæði einstæða móðirin og einstæði faðirinn fengu störf á ný. Lægri laun en áður, en atvinna var það samt. Þeim óx styrkur og kraftur við að komst aftur út á vinnumarkaðinn og voru staðráðin í því að leita áfram uppbyggilegra sóknarfæra.

Það sitja ekki öll börn við sama borðEinstæðar mæður eiga rétt á sex mánaða fæðingarorlofi, meðan sambúðarforeldrar fá níu mánuði samanlagt.

Ekki virðist gert ráð fyrir að börn einstæðra mæðra þurfi jafn mikla samveru við foreldri og önnur börn á mikilvægasta mótunarskeiði bernskunnar.



Þrátt fyrir að lög um fæðingarorlof heimili föður sem ekki er í sambúð með móður að taka þriggja mánaða fæðingarorlof er það háð samþykki móður og vilja föður.



Ekki hafa allir foreldar nýfæddra barna samband sín á milli. Ýmsar ástæður liggja að baki, þar á meðal landfræðileg fjarlægð. Við slíkar aðstæður þarf að koma aukinn réttur fæðingarorlofs móðurinnar sem annast ein barnið sitt. Hér þarf að vera heimild í lögum til að móðir geti nýtt sér ónýttan rétt föður.



Þennan galla á annars mjög góðum lögum þarf að leiðrétta, án þess þó að skemma jafnréttissjónarmið þeirra.




Skoðun

Sjá meira


×