Skoðun

Samsteypustjórnir krefjast málamiðlana

Margrét S. Björnsdóttir skrifar
Langt er síðan við fengum tækifæri til að sprengja vinstri stjórn, það verður skemmtilegt,“ sagði við mig gamalreyndur Sjálfstæðismaður, þegar Jóhanna og Steingrímur mynduðu ríkisstjórnina 2009.



Áformin mjakast, þrír þingmanna VG hafa yfirgefið stjórnina. Sumir vegna ESB-aðildarumsóknar, sem VG samþykkti með ríkisstjórnarsáttmálanum, um leið og flokkurinn áskildi sér rétt til að vera á móti þegar til þjóðaratkvæðagreiðslu kæmi. Önnur í þremenningahópnum bera við flokksaga og kalla foringjaræði. En er slíkt annað en skuldbinding við gerða samninga, sem hlýtur að vera meginregla flokka sem vilja axla ábyrgð í samsteypuríkisstjórnum? Ef allir færu alltaf eftir eigin geðþótta (sem sumir kalla samvisku), er lítið að marka kosningar milli flokka og samsteypustjórnir virkuðu ekki.



En skyldu félagsmenn VG vera sáttir? Ætla þeir að horfa á nokkra þingmenn eyðileggja VG sem stjórntækan flokk er axlar ábyrgð á erfiðum tímum? Vilja þeir að flokkurinn sé dæmdur frá mögulegum áhrifum og ríkisstjórnarþátttöku á komandi árum? Eru þeir ekki eins og við flest í Samfylkingunni, bærilega sáttir við árangur sem náðst hefur í þröngri stöðu. Árangur sem þau Jóhanna og Steingrímur, sem bæði standa sig mjög vel, gerðu grein fyrir í vantraustsumræðunni: Jöfnuður hefur aukist, efnahags- og kjaramál á réttri leið, margvísleg málefni kvenna lagfærð, réttarbætur komist á fyrir innflytjendur, stjórnkerfisumbætur og lýðræðismál komin á rekspöl, rammaáætlun um nýtingu orkuauðlinda og langþráðar umbætur á fiskveiðistjórnunarkerfinu í sjónmáli.

Telja þingmennirnir þrír að betri árangur náist í baráttumálum VG í öðru ríkisstjórnarsamstarfi? Eða er þeim kannske alveg sama? Aðalatriðið sé að raddir þeirra heyrist, þau láti ekki kúga sig til málamiðlana?



Allir sjá hvernig ritstjóri Morgunblaðsins hefur tekið stjórnarandstöðuna í VG uppá sína arma, hampar henni sífellt á síðum blaðsins. Með þeim árangri að þingmennirnir þrír telja sig í fararbroddi mikilsverðrar þjóðmálahreyfingar gegn ríkisstjórninni.



Við þurfum, bæði í Samfylkingu og VG að fara yfir árangur ríkisstjórnarinnar og meta hvort þau áhrif sem við höfum þar, réttlæti málamiðlanir sem báðir flokkar hafa gert. Ég er ekki í vafa um, að niðurstaðan verður sú að þessu samstarfi beri að halda áfram. Þó ekki sé allt eins og við helst kysum, er árangurinn umtalsverður og síst ástæða að láta andstæðinga ríkisstjórnarinnar ráða ferðinni.




Skoðun

Sjá meira


×