Skoðun

Umbætur í íslenskri stjórnsýslu, eða hvað?

Magnús Guðmundsson skrifar
Forstöðumenn gegna mikilvægum hlutverkum í íslenskri stjórnsýslu og á þeim brennur að reka stofnanir samfélagsins með sem bestum og hagkvæmustum hætti. Forstöðumenn eru einnig lykilhópur við að innleiða nýsköpun og umbætur í íslenskri stjórnsýslu til þess að hægt sé að veita samfélaginu góða þjónustu þrátt fyrir lækkandi fjárveitingar.

Því miður er nú svo komið að í öllu umbótastarfinu blasir við það vandamál að forstöðumenn upplifa að þeir séu beittir órétti af hendi stjórnvalda á sama tíma og kröfur til þeirra eru meiri en nokkru sinni fyrr.

Stétt forstöðumanna ríkisstofnana, sem hvorki hefur samningsrétt né verkfallsrétt, hefur umfram aðra hópa í samfélaginu orðið fyrir óréttlátum aðgerðum í kjölfar hruns íslensks efnahagslífs í árslok 2008. Laun voru lækkuð og fryst með lagasetningu í tvígang og hefur kaupmáttur þessa hóps lækkað um 10% umfram aðra sambærilega hópa síðan í ársbyrjun 2009. Ákvæðum laga um frystingu og launalækkun var aflétt 1. desember 2010 en þrátt fyrir það hafa kjörin ekki verið leiðrétt til fyrra horfs þó að lög um Kjararáð tilgreini að svo skuli gert. Þetta verður að teljast afar slæm stjórnsýsla og mögulegt lögbrot á sama tíma og stjórnvöld gera kröfur um að vinnubrögð verði bætt í stjórnsýslunni í heild.

Forstöðumenn geta og vilji standa vaktina á fullum krafti í krefjandi verkefnum en þeir þurfa að fá eðlilega og sanngjarna umbun fyrir störf og árangur. Það er órökrétt að forstöðumenn fái neikvæð skilaboð í formi óréttlætis af hendi stjórnvalda þegar þeir þurfa á hvatningu og stuðningi að halda. Eðlileg laun og samhengi á milli árangurs og umbunar er hluti að nauðsynlegu umbótastarfi í íslenskri stjórnsýslu. Ella er hætta á atgervisflótta með ófyrirséðum afleiðingum.




Skoðun

Sjá meira


×