Skoðun

Aukin ábyrgð og álag á sjúklinga og aðstandendur

Dr. Sólfríður Guðmundsdóttir skrifar
Með breyttum aðstæðum í samfélaginu hefur þjónusta við skjólstæðinga innan heilbrigðiskerfisins færst í auknum mæli af sólarhrings legudeildum sjúkrastofnana yfir á dag- og göngudeildir. Aukin þjónustuþörf skapast þá fyrir þessar fjölskyldur utan stofnana, til dæmis í tengslum við heimahjúkrun, heilsuráðgjöf, heilsugæsluþjónustu og ýmis konar sérfræðiþjónustu heilbrigðisstétta. Undanfarna áratugi hefur meðaltal legudaga á sjúkrahúsum stöðugt farið lækkandi. Það getur talist jákvæð þróun ef umönnun sjúklinga er tryggð í heimahúsum og fullnægjandi öryggis er gætt. Það gengur þó misjafnlega vel að ná markvissri samvinnu fagfólks þegar skjólstæðingar færast úr einu kerfi í annað eftir útskrift af sjúkrahúsi.

Ef meðferðarþjónusta sem færist frá stofnun til heimilis er fyrirfram skipulögð í samvinnu við sjúklinginn og fjölskyldu hans gefst oftast tími og tækifæri til að fræða fjölskylduna og veita þeim undirbúning til að takast á við nýtt umönnunarhlutverk. Ef um bráða aðgerð eða meðferð er að ræða þarf fræðslan að fara fram eftir aðgerð og gott eftirlit getur fyrirbyggt fylgikvilla og að vandamál skapist hjá fjölskyldum vegna skorts á þekkingu eða nauðsynlegri eftirmeðferð. Einnig þarf í sumum tilfellum að skipuleggja heimilishjálp auk heimahjúkrunar eftir heimkomu, en það getur þó tekið lengri tíma að ná að mæta þörfum allra fyrir þjónustuna.

Greining sjúkdómsástands, meðferð heilsuvandamála og umönnun sjúkra fer nú í auknum mæli fram án innlagnar á stofnun. Með nýrri tækni má gera sífellt flóknari aðgerðir og meðferðir án þess að sjúklingurinn fari á legudeild, heldur fer hann heim strax eftir vöknun að lokinni aðgerð ýmist á sjúkrastofnun eða á læknisstofu úti í bæ. Þetta skipulag á aðgerðum kallar á aukið aðgengi fjölskyldna að heilbrigðisfræðslu og eftirfylgd úti í samfélaginu svo þau upplifi sig örugg og að vel takist til að ná bata. Þetta fyrirkomulag gerir einnig ákveðnar kröfur til skjólstæðinga og fjölskyldna þeirra, því þarf fræðsla og undirbúningur að vera góður áður en aðgerð fer fram. Æskilegast er að allir sem að þessu ferli koma vinni saman til að ná sem bestum árangri og hagkvæmni í heilbrigðisþjónustunni.

Almenningur lítur gjarnan á störf hjúkrunarfræðinga út frá þjónustu þeirra á sjúkrahúsum. Sú hjúkrun fer oftast fram með sólarhrings hjúkrunarþjónustu á legudeildum þar sem hjúkrunarfræðingar annast meðferð sjúklinga og mæta þeim þörfum sem viðkomandi er ófær um að sjá um vegna veikinda. Hjúkrunarfræðingar veita skjólstæðingum ráðgjöf og fræða um sjúkdómsástandið til að viðkomandi öðlist þekkingu á því hvað þarf að gera og hvers vegna, svo hann nái sér sem fyrst og efli eigin heilsu. Nú er svo komið að hjúkrunarfræðingum í vaktavinnu hefur fækkað mikið, enda hefur sólarhringsdeildum verið lokað eins og áður hefur verið lýst.

Ráðningarsamningar við hjúkrunarfræðinga hafa sumir ekki verið endurnýjaðir sökum sparnaðar eða niðurskurðar og sjúkrahús hafa verið sameinuð eða lögð niður. Allar þessar breytingar auka álag á þá hjúkrunarfræðinga sem eru starfandi á sjúkrahúsum og sjúklingarnir eru útskrifaðir við fyrsta tækifæri og stundum án þess að þeir séu í raun undir það búnir. Umönnun sjúkra og aldraðra hefur því í auknum mæli færst á aðstandendur þeirra, sem eru misjafnlega vel í stakk búnir til að annast þetta hlutverk. Það er brýn þörf á að endurskoða og samræma þjónustukerfi heilbrigðismála með tilliti til þessara breyttu aðstæðna í samfélaginu til að auka vellíðan og nýta fjárveitingar til heilbrigðismála sem allra best.




Skoðun

Sjá meira


×