Skoðun

Að finna stéttarfélag

Sveinn Ólafsson skrifar
Margt hefur breyst á síðustu þremur árum og þar á meðal staða launþega. Allt er orðið harðdrægara og verður það næstu árin. Stéttarfélög semja um lágmarkskjör stétta á vinnumarkaði. Milli 1995 og 2008 voru þetta viðmiðunarkjör sem sífellt færri bjuggu við. Eftir það eru þetta raunveruleg kjör æ fleiri.

Margt háskólamenntað fólk hefur verið skráð í almenn stéttarfélög, ýmist vegna þess að vinnuveitandi skráir flesta launþega sína í sama stéttarfélag eða vegna þess að fólk hefur valið sér félög vegna orlofskosta eða af öðrum ástæðum.

Háskólamenntuðu fólki er frjálst að ganga í sitt stéttarfélag innan BHM án tillits til þess hvar það vinnur. Þótt það vinni við störf sem krefjast ekki háskólamenntunar nýtur það sama stuðnings og réttinda og aðrir félagsmenn. Margir halda að félög innan BHM séu bundin við opinbera starfsmenn en það er öðru nær, félagsmenn þeirra vinna bæði á almennum markaði og innan opinbera geirans.

Eftir þær breytingar sem urðu 2008 er aukin áhersla á starfsmenntun, bæði af hendi vinnuveitenda og stéttarfélaga. Aðstæður hafa breyst mikið og það eru bæði hagsmunir launþega og vinnuveitanda að hafa vel menntað starfsfólk til þeirra starfa sem verða til á næstu árum, og vegna breytinga sem verða á núverandi störfum. Starfsmenntun háskólamenntaðra stéttarfélaga mun miðast við þarfir þeirra stétta og ekki annarra.

Flestar fagstéttir háskólamenntaðra eiga sér sitt félag innan BHM en eitt félag, Fræðagarður, hefur verið opið öllum háskólamenntuðum sem ekki eiga sér stað í öðrum félögum.

Fólki er frjálst að velja sitt stéttarfélag og miðast við reglur félaganna um inngönguskilyrði, sem að jafnaði eru háskólamenntun í viðkomandi fagi að aflokinni BA- eða BS-gráðu. Hægt er að skipta um stéttarfélag frá því þremur mánuðum áður en samningar losna og þar til samningar komast á að nýju. Samningar urðu almennt lausir 30. nóvember síðastliðinn og eru ekki komnir á að nýju. Allt háskólamenntað fólk ætti að skoða vandlega kosti þess að vera hluti af sínu stéttarfélagi. Allar nánari upplýsingar eru á vef BHM og vefjum viðkomandi stéttarfélaga.




Skoðun

Sjá meira


×