Skoðun

Hættan á að ekkert gerist

Árni Oddur Þórðarson skrifar
Í dag er kosið um hvort samþykkja eigi Icesave-samningana sem gerðir voru á milli Íslendinga, Breta og Hollendinga í desember síðastliðnum. Nýju samningarnir hafa náð að létta byrðarnar verulega miðað við eldri samningana og ég tel að það muni reynast hagkvæmara fyrir þjóðfélagið í heild að samþykkja þá fremur en freista dómstólaleiðar. Ég mun segja JÁ við sáttaleiðinni.



Björgunarlínur til Íslands á grunni samningaleiðar



Mikill meirihluti alþingismanna hefur verið hlynntur því að við Íslendingar færum samningaleiðina í Icesave-málinu. Víðtæk sátt skapaðist um að skipa nýja samninganefnd undir forystu Lee Buchheit með fulltrúum stjórnar og stjórnarandstöðu innanborðs. Á þeim grunni veittu frændþjóðir okkar á Norðurlöndum lánalínur á afar viðkvæmum tíma. Ljóst er að ekki verður gengið lengra í samningaleiðinni en hinn nýi Icesave-samningur segir til um og þegar hefur verið samþykktur af 2/3 hluta alþingismanna. Betra er hér að fara þá sáttaleið sem er í boði en freista þess að ná fullum sigri í dómsmáli. Sáttaleiðin er því ekki einungis gagnvart Bretum og Hollendingum heldur einnig gagnvart Norðurlandaþjóðunum í þessu tilviki.

Sá sem kann að leysa erfið deilumál með sátt er metinn verðugur samningamaður til framtíðar. Það þarf að meta hvort kostnaður Icesave-samningsins hins nýja sé ásættanlegur í samanburði við þann kostnað sem kann að hljótast við dómstólaleiðina eða við það að tefja þetta mál frekar. Oft er það svo að kakan sem er til skiptanna er ekki sú sama fyrir og eftir erfið og tímafrek dómsmál.



Gerist þá ekki neitt ef við segjum NEI?



Fjölmargir andstæðingar sáttaleiðar segja að engin lagaleg skylda sé til að samþykkja samning og ekkert muni gerast við það að við Íslendingar höfnum samningi sem er í samræmi við bestu niðurstöðu hér að ofan. En það er einmitt málið – hættan er að það gerist ekki neitt! Á árinu 2010 var 3,5% samdráttur í vergri landsframleiðslu á Íslandi á meðan heimshagvöxtur var 5% að meðaltali, drifinn að mestu af hagvexti nýmarkaðsríkja. Hagvöxtur í Evrópu var að meðaltali um 2% í fyrra. Stöðnun í 2-3 ár til viðbótar veldur beinu fjárhagstjóni sem er mun hærra en sá kostnaður sem nú reiknast af sáttaleið. Sálfræðilegt tjón Íslendinga að halda áfram að deila um þetta mál í stað þess að halda áfram fram á veginn getur vegið enn þyngra. Það þarf kraft, hóflega bjartsýni og jákvæðni til að byggja upp!



Líklegasta niðurstaðan af dómstólaleið er þó verri en hér er lýst, þar sem NEI kýs yfir okkur stöðnun í 2-3 ár í stað hagvaxtar auk þess sem Íslendingum verði gert að greiða höfuðstól í samræmi við þann samning sem nú liggur fyrir. Þá er hins vegar alls óljóst hvaða vaxta- og greiðslukjör bjóðast.



Að segja NEI við sáttaleiðinni eykur óvissu og áhættu í augum erlendra fjárfesta og lánastofnana gagnvart íslenska ríkinu og aðilum með tekjur í íslenskum krónum. Það mun bitna á lánskjörum og fjármögnunarmöguleikum ríkis, sveitarfélaga, smærri og meðalstórra fyrirtækja og heimila landsins. Skert aðgengi að fjármögnun í formi lánsfjár eða eiginfjár skerðir samkeppnisstöðu, sem leiðir til þess að minna er til skiptanna hjá atvinnurekendum og launþegum. Ríki og sveitarfélög hafa þá minna fé til rekstrar samfélagsþjónustu á borð við skóla og heilbrigðisþjónustu.



Kaupmáttur launatekna er hér með lægsta móti og atvinnuleysi það hæsta á Norðurlöndum nú um stundir. Við áframhaldandi kyrrstöðu á Íslandi á sama tíma og hagvöxtur ríkir hjá grannþjóðum breikkar það bil frekar.



En hvað gerist ef við segjum Já?



Miðað við stöðu eignasafns gamla Landsbankans nú eru allar líkur á því að heildarkostnaður ríkisins við að fara sáttaleiðina fari ekki yfir 20-50 milljarða króna. Þó að það séu vissulega umtalsverðir fjármunir eru þetta ekki háar tölur í samanburði við þá hagsmuni sem hér er um að tefla.



Með því að segja JÁ stígum við skref til þess að rjúfa kyrrstöðuna og stígum fyrstu skref til að hefja endurreisn íslenska hagkerfisins.



Svo þarf að sjálfsögðu fleira að koma til, eins og skýr og trúverðug stefnumörkun til framtíðar af hálfu stjórnvalda sem veitir þátttakendum í atvinnulífinu umgjörð til að skapa langtímaverðmæti til handa viðskiptavinum, launþegum, eigendum fyrirtækja og samfélagsins alls.



Ég ætla að segja JÁ við sáttaleiðinni.




Skoðun

Sjá meira


×