Skoðun

Ný stjórnarskrá – nýtt Ísland

Sigurður Líndal skrifar
Ný stjórnarskrá og nýtt Ísland virðist eiga að vera leiðarljós stjórnlagaráðs sem nú hefur komið saman. Þetta nýja Ísland á að rísa úr rústum hins gamla sem hrundi 2008, einkum vegna gallaðrar stjórnarskrár. Reyndar hefur aldrei verið sýnt fram á með viðhlítandi rökum að stjórnarskrá eigi þar neina sök. Rannsóknarnefnd Alþingis hefur hins vegar (einkum í þeim hluta sem fjallar um siðferði og starfshætti) lagt áherzlu á að orsök þess ófarnaðar sem gengur undir heitinu „hrunið“ liggi ekki sízt í virðingarleysi fyrir lögum og reglum, jafnt í stjórnarháttum sem viðskiptalífi, og birtist í stöðugri viðleitni til að finna leiðir framhjá þeim. Þetta eigi jafnt við þröngar lagareglur sem siðferðileg viðmið.



Nú er skipun stjórnlagaráðs stjórnarskrárbrot, eða a.m.k. gróf stjórnarskrársniðganga þar sem löggjafinn hefur með henni gengið inn á svið dómsvaldsins og breytt ákvörðun Hæstaréttar sem er endanlegur dómur eða að minnsta kosti ígildi dóms. Þetta er nánar útlistað í grein minni í Fréttablaðinu 16. marz sl. Með þessu hafa stjórnlagaráðsmenn að einum frátöldum samsamað sig þeim sem sniðgengu lög og siðferðisviðmið og áttu drýgstan þátt í hruninu. – Er þetta leiðarljós hins nýja Íslands?




Skoðun

Sjá meira


×