Skoðun

Viltu játa glæp?

Sveinn Valfells skrifar
Landsbankinn var seldur í skömmtum á almennan markað fram á sumarið 2002, allir gátu skráð sig fyrir hlut. Án skýringa var ferlinu þá kúvent. Í málamyndarútboði var þremur mönnum afhentur ráðandi hlutur.



Þeir voru lægstbjóðendur. Kaupin voru fjármögnuð af ríkinu að verulegum hluta. Fyrirvarar fylgdu um afskriftir og uppgjörsgjaldmiðil.

Málverkasafn bankans fylgdi með.



Nýjir eigendur bankans settu allt í botn. Eimskip, Sjóvá, Morgunblaðið, Atlanta, Samskip, Landsbankinn eirði engu, reyndi við allt, gaf engin grið. Þekktur maður úr viðskiptalífinu komst svo að orði að dómarinn sæti upp í stúku að borða pulsu og kók.

Svona var Ísland. Sérstakur saksóknari hefur lítið aðhafst vegna Landsbanka. En nú berast tíðindi að utan. Efnahagsbrotadeild breskra yfirvalda, Serious Fraud Office, hefur hafið að rannska færslur Landsbankans með breskar innistæður rétt fyrir hrun.

Vitnað er í bréf frá skilanefnd Landsbanka til fyrrum stjórnarmanna sem lýsir hvernig 174 milljón pund, rúmir 32 milljarðar króna, voru færð út úr bankanum daginn sem hann fór í þrot. Með „ólögmætum hætti“. Megnið af peningunum hafi verið sendir til félaga í eigu eða undir stjórn Björgólfs Thors Björgólfssonar og föður hans Björgólfs Guðmundssonar.



Feðgarnir voru ekki aðeins aðaleigendur heldur líka stærstu lántakendur Landsbankans. Fjármálaeftirlitið fullyrti að lánveitingar bankans til Björgólfs Thors hefðu farið langt fram yfir lögbundið hámark árið 2007.



Björgólfur Thor segist hvergi hafa komið nálægt stjórn Landsbanka. En hann var aðalfulltrúi á neyðarfundum um mögulega björgun bankans rétt áður en bankinn fór í þrot. Rétt áður en fullyrt er að innistæður breskra sparifjáreigenda voru látnar renna í vasa þeirra feðga, aðaleigenda bankans, með „ólögmætum hætti“ kortér fyrir hrun. Það eru þessar innistæður sem Bretar og Hollendingar vilja að íslenskir skattgreiðendur borgi til baka.



Varst þú einn af aðaleigendum Landsbanka Íslands? Fékkst þú færslur úr bankanum skömmu áður en skilanefnd tók hann yfir? Vilt þú játa glæp?

Viltu „redda“ þessum mönnum? Trúir þú því að hjól atvinnulífsins taki að snúast við það eitt að skera þá niður úr snöru á meðan ekkert annað er aðhafst, engu öðru breytt? Kjóstu þá „Já“ við Icesave, þá samþykkir þú óbreytt ástand og að borga fyrir peningana sem hurfu úr Landsbanka Íslands kortér fyrir hrun.




Skoðun

Sjá meira


×