Skoðun
Helgi Gíslason, framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Reykjavíkur

Náttúruvernd

Helgi Gíslason skrifar

Snorri Baldursson, líffræðingur, nú einn af stjórnendum Vatnjökulsþjóðgarðs, en áður einn af æðstu stjórnendum hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, skrifar athyglisverða grein í Fréttablaðið þann 22. febrúar s.l. Þar ber hann fram þá einlægu ósk, að með breytingu á náttúruverndarlögum verði skógræktarstarf landsmanna „skaðað til frambúðar“. Þar kom að því, að upplýst væri hvað liggur að baki þeim tillögum til breytinga á völdum köflum náttúruverndarlaganna, sem nú liggja fyrir í umverfisráðuneytinu. Snorri varpar fram undarlegum rökum gegn blönduðum skógum og kallar þess í stað eftir fábreytni í flóru landsins Þar fór alþjóðasamningurinn um líffræðilega fjölbreytni út í hafsauga hjá honum. Hann tínir síðan saman hvaðan helstu skógartrén séu ættuð, eins og það sé þeim til hnjóðs. Allar plöntur í íslensku flórunni eru ættaðar einhversstaðar frá. Það virðist ekki skipta máli. Þess í stað er reynt að finna trjánum allt til foráttu vegna uppruna þeirra. Það er ekki góð líffræði og vond siðfræði. Leiðarljós náttúru- og umhverfisverndarfólks sem vinnur að skógrækt og landgræðslu hefur verið að bjarga birkiskógum landsins og stuðla að aukinni útbreiðslu þeirra. Merkustu áfangar í náttúruvernd hafa náðst fyrir tilstuðlan skógræktar- og landverndarfólks sem sneri bökum saman í baráttu gegn eyðingaröflunum. Nægir í því samhengi að nefna Hallormsstaðaskóg, Skaftafell, Þórsmörk, Heiðmörk, Hreðavatn og Fnjóskadal, svo nefnd séu nokkur helstu skógarsvæðin sem risið hafa úr öskustónni. Í grein sinni hvetur Snorri skógræktarfólk til að snúa sér að friðun lands; þá vaxi upp sjálfgrónir birkiskógar þar sem engir voru áður. Honum til upplýsingar má benda á að þetta er og hefur verið ein helsta aðferðin sem skógræktarfólk hefur stuðst við sl. 100 ár við að vernda og auka útbreiðslu birkiskóga, í samræmi við skógræktarlög frá 1907. Skógræktarfólk hefur fengist við fleiri uppbyggileg verkefni, m.a. að auðga flóruna með fleiri tegundum sem verða til nytja óbornum kynslóðum. Eru þær tegundir nú þegar farnar að skila þjóðarbúinu arði og störfum og eru almenningi til yndis. Þar eru m.a. sígræn tré sem sóma sér vel í íslensku umhverfi, laða að sér gesti og eru til skjóls og yndisauka. Alls eru 4,5 milljónir heimsókna í íslenska skóga á ári hverju. Í Heiðmörk koma um 500 þúsund gestir árlega til að njóta náttúrufegurðar hinna fjölbreyttu sígrænu skóga og sumargrænu birkiskóga. Skóga sem hafa orðið til vegna friðunaraðgerða og ræktunarstarfs harðfylgins skógræktarfólks. Meðal þess sem einkum virðist ergja embættismanninn er að veitt skuli ríkisfé til skógræktar. Í því sambandi er rétt að benda á að árið 2007 var Skógrækt ríkisins flutt til umhverfisráðuneytisins, sama ráðuneytis og Vatnajökulsþjóðgarður og Náttúrufræðistofnun Íslands heyra undir. Það eru engin ný tíðindi að stofnanir innan ráðuneyta keppi um fjárframlög, því eins dauði er annars brauð. Því er hún auðskilin aðförin að náttúru- og umhverfisverndarfólki sem vinnur að skógræktarmálum og þarf að lúta valdi og njóta velvilja sama ráðherra. Nú er aðeins 1% af flatarmáli Íslands vaxið skógi en var um 30% við landnám og hefur ekkert evrópskt land orðið jafn illa úti í eyddum vistkerfum skóga, gróðurlenda og jarðvegs. Þetta eru verstu hamfarir af mannavöldum í Íslandssögunni og umhverfisslys á heimsmælikvarða. Það vekur enda furðu erlendra gesta að heyra af þessum fjandskap nokkurra embættismanna ríkisins út í einlægan og einbeittan vilja þjóðarinnar til að auka við skóglendi landsins að nýju. Sennilega átta þeir sig ekki á að baki þessu liggur samkeppni um fjármuni meðal stofnana Umhverfisráðuneytisins og von um að málflutningurinn sé ráðherra þóknanlegur. Undir lok greinar sinnar hvetur Snorri skógræktarfólk til „að vinna með umhverfisyfirvöldum og náttúrunni í því að endurheimta birkiskóginn“. Þessi ósk hans er kyndug í ljósi þess að skógræktarfólk hefur unnið náið með stjórnvöldum í 100 ár að þessum verkefnum. En ef yfirvöld til húsa í Umhverfisráðuneytinu ætla að skaða skógræktarstarfið til frambúðar, með eins markvissum hætti og kemur fram í máli þjóðgarðsvarðarins og fyrrverandi forstjóra Náttúrufræðistofnunar Íslands, þá er friðurinn úti. Skýrasta birtingarmynd þess ásetnings sést best í áðurnefndum frumvarpsdögunum um breytingu á náttúruverndarlögum sem nýlega hafa verið kynnt. Það væri ekkert annað en umhverfisslys verði þessi frumvarpsdrög að lögum. Þá mun skógræktarfólk og annað ræktunarfólk snúast til varnar fyrir landið.
Skoðun

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.