Viðskipti innlent

Kvótabreyting gæti skekkt bankakerfið

Jón Aðalsteinn Bergsveinsson skrifar
Áhættuskýrslan kynnt. Sverrir Þorvaldsson segir innköllun á aflaheimildum sjávarútvegsfyrirtækja geta haft töluverð áhrif á bankakerfið.
Áhættuskýrslan kynnt. Sverrir Þorvaldsson segir innköllun á aflaheimildum sjávarútvegsfyrirtækja geta haft töluverð áhrif á bankakerfið. Mynd/GVA
Ólíklegt er að stjórnvöld samþykki innköllun aflaheimilda á tuttugu árum. Slíkt getur leitt til gjaldþrots þeirra fyrirtækja í sjávarútvegi sem ráða yfir allt að helmingi af aflaheimildum og haft mjög neikvæð áhrif á bankakerfið.

„Við viljum vekja athygli á því að verðmæti eigna í sjávarútvegi er háð aflahæfi. Í sjálfu sér leggjum við ekki mat á bein áhrif, en þau gætu orðið töluverð,“ segir Sverrir Örn Þorvaldsson, framkvæmdastjóri áhættustýringar hjá Íslandsbanka. Hann kynnti í gær sérstaka áhættuskýrslu þar sem farið var yfir helstu áhættuþætti í starfsemi bankans.

Markmiðið með skýrslunni er að auka gagnsæi, uppfylla kröfur regluverksins um upplýsingagjöf, gefa betri innsýn í áhættu í rekstri bankans og eiginfjárstöðu hans. Nokkrir erlendir bankar hafa birt skýrslur sem þessar en Íslandsbanki er fyrstur banka hér á landi til þess.

Í skýrslunni vitnar Íslandsbanki til greinargerðar Rannsókna- og þróunarmiðstöðvar Háskólans á Akureyri frá maí í fyrra þar sem farið var yfir áhrif innköllunar aflaheimilda á stöðu íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja. Fram kemur í greinargerðinni, sem unnin var fyrir starfshóp sem skipaður var af sjávarútvegsráðherra til að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnunarinnar, að heildarskuldir sjávarútvegsfyrirtækja hafi numið 465 milljörðum króna í árslok 2008. Þá segir að þau fyrirtæki sem hafi yfir að ráða 45 til 50 prósentum af aflaheimildum séu í erfiðri stöðu. Félög með aðeins átta til tólf prósent aflaheimilda voru hins vegar í góðri stöðu.

Skuldir sjávarútvegsfyrirtækja gagnvart viðskiptabönkunum þremur námu 257 milljörðum króna í lok síðasta árs, samkvæmt ársreikningum þeirra. Landsbankinn ber mestar byrðar, 137 milljarða króna. Lánveitingar Íslandsbanka nema 68 milljörðum.

„Við erum með töluvert eigið fé til að takast á við þetta, 142 milljarða, sem samsvarar 26,6 prósenta eiginfjárhlutfalli, langt umfram þau viðmið sem Fjármálaeftirlitið hefur sett. En ef sjávarútvegsfyrirtæki munu í stórum stíl ekki ráða við skuldir sínar þá kemur það við bankakerfið,” segir Sverrir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×