Viðskipti innlent

Century varar við óvissu í Helguvík

Áætlað hefur verið að á framkvæmdatíma byggingar álvers í Helguvík yrðu til um 3.200 ársverk auk afleiddra starfa. Framkvæmdir hafa verið stöðvaðar að mestu meðan óvissa ríkir um það hvort orka fáist til álversins.Fréttablaðið/GVA
Áætlað hefur verið að á framkvæmdatíma byggingar álvers í Helguvík yrðu til um 3.200 ársverk auk afleiddra starfa. Framkvæmdir hafa verið stöðvaðar að mestu meðan óvissa ríkir um það hvort orka fáist til álversins.Fréttablaðið/GVA
Ragnar Guðmundsson
Erfitt eða ógjörlegt gæti orðið að afla orku til álvers Norðuráls í Helguvík fáist ekki orka samkvæmt fyrirliggjandi samningum við HS Orku og Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta kemur fram í ársskýrslu Century Aluminum Co. þar sem fjallað er um áhættuþætti í rekstri.

Norðurál Helguvík sem reisir álverið er að fullu í eigu Norðuráls, sem á og rekur álverið á Grundartanga og er aftur að fullu í eigu Century Aluminum.

Verði hætt við álverið, eða það tefst verulega, er það sagt munu hafa verulega neikvæð áhrif á fjármögnun, afkomu og lausafjárstöðu Century Aluminum.

Áréttað er að félagið hafi engin tök á að stjórna, hafa áhrif á eða spá fyrir um þætti sem tafið gætu eða hindrað framleiðslu og afhendingu orku til álversins. „Þar með er talin geta orkufyrirtækjanna til að fjármagna þróun nýrra jarðvarmavirkjana og tengda uppbyggingu mannvirkja til afhendingar orkunnar.“ Framkvæmdir við byggingu álversins í Helguvík hafa verið stöðvaðar að mestu á meðan ekki hefur verið leyst úr vandamálum við að afla því orku. Í ársskýrslu Century Aluminum er tekið fram að óvissa ríki um hvort eða hvenær framkvæmdum verði haldið áfram, hvort lokið verði við smíði álversins eða hvort rekstur álversins verði arðbær.

Í umfjöllun um áhættuþætti í ársskýrslu Century Aluminum eru einnig slegnir margvíslegir aðrir varnaglar varðandi afkomu félagsins. Fjallað er um sveiflur í álverði, óstöðugleika á mörkuðum með hráefni, hækkandi raforkuverð og fleiri þætti.

Ragnar Guðmundsson, forstjóri Norðuráls, segir framsetninguna í ársreikningnum kunna að vera Íslendingum framandi, en vestra sé sá háttur hafður á að velta upp með þessum hætti margvíslegum áhættuþáttum. „Þetta er eiginlega upptalning á margvíslegum þáttum sem einhvern tímann gætu komið upp við einhverjar aðstæður,“ segir hann.

Ragnar segir gerðardómsmál vegna samninga félagsins við HS Orku verða tekið fyrir í maí og niðurstaða eigi að liggja fyrir í sumar. „Og það er svo sem ákvörðunarpunktur í því. En auðvitað vonumst við til þess að menn klári samningaleið áður en til þess kemur og teljum vel tækifæri til þess, hafi menn áhuga á því.“

olikr@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×