Skoðun

Kostnaður forréttinda

Guðmundur Örn Jónsson skrifar
Í umræðunni um stjórn fiskveiða hafa tvær ástæður fyrir óhagkvæmni forréttinda eins og núverandi gjafakvóta lítið verið ræddar. Annars vegar viðurkenna fylgismenn markaðshagkerfa að samkeppni um takmörkuð gæði sé almennt besta leiðin til að hámarka verðmæti þeirra og framþróun atvinnugreina sem þau nýta. Þ.e.a.s. að samkeppni um kvóta hámarki verðmæti hans og stuðli að mestri framþróun sjávarútvegs. Skipta áhrif nýliðunar þar miklu máli.

Hins vegar er sá kostnaður sem fylgir því að verja forréttindi eins og gjafakvóta, sem ekki fellur til ef réttindin eru seld á markaði. Rökrétt er fyrir forréttindahópa að leggja út í kostnað við að vernda forréttindi sín og fer kostnaðurinn eftir því hversu líklegur árangur baráttunnar er. Sá kostnaður getur í vissum tilfellum orðið nánast jafn hár og tekjurnar af forréttindunum.

Þannig gæti t.d. verið hagkvæmt fyrir handhafa gjafakvóta að eyða næstum öllum leigutekjunum af honum til að koma í veg fyrir að landsmenn fái þær, ef hann væri þá viss um að halda honum. Eitthvað væri jú eftir fyrir hann sjálfan sem annars færi til landsmanna. Fyrir sjávarútveginn í heild gæti því verið um verulegar fjárhæðir að ræða sem færu í að verja gjafakvótann. Sá kostnaður getur falist í ýmsu, t.d. í að því að niðurgreiða útgáfu dagblaðs, „leigja“ virðingu háskóla með kostun starfsmanna þar eða greiða í sjóði hliðhollra stjórnmálaflokka. Sú leið er mun áhrifaríkari ef þau framlög eru ekki gefin upp og hafa því ekki áhrif á fylgi hliðhollra flokka og því ekki áhrif á árangur baráttunnar fyrir forréttindunum.

Aðalatriðið er að kostnaðurinn við vernd forréttindanna felur ekki í sér neina verðmætasköpum fyrir þjóðarbúið og bætir lífskjör ekkert. Þ.e.a.s. stórum hluta af arði kvótans er hugsanlega sóað í baráttu við landsmenn í stað þess að landsmenn nýti hann sjálfir til einhvers gagnlegs.

Þeir Íslendingar sem vilja halda í núverandi gjafakvóta vilja því ekki aðeins standa vörð um það sem Sameinuðu þjóðirnar kalla mannréttindabrot heldur líka fórna efnahagslegri hagsæld. Það þurfa þeir að rökstyðja.




Skoðun

Sjá meira


×