Viðskipti innlent

Borgi Glitnismönnum málaferlin í New York

Lárus Welding, Þorsteinn M. Jónsson og Jón Sigurðsson Fyrrverandi bankastjóri og tveir stjórnarmenn úr Glitni telja að stjórnendatrygging sem bankinn keypti hjá TM nái yfir kostnað þeirra vegna málaferla á hendur þeim. Tryggingamiðstöðin hafnar öllum slíkum kröfum.Fréttablaðið/Rósa
Lárus Welding, Þorsteinn M. Jónsson og Jón Sigurðsson Fyrrverandi bankastjóri og tveir stjórnarmenn úr Glitni telja að stjórnendatrygging sem bankinn keypti hjá TM nái yfir kostnað þeirra vegna málaferla á hendur þeim. Tryggingamiðstöðin hafnar öllum slíkum kröfum.Fréttablaðið/Rósa
Lárus Welding, fyrrverandi bankastjóri Glitnis, og Þorsteinn M. Jónsson og Jón Sigurðsson, fyrrverandi stjórnarmenn í bankanum, krefjast þess fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að Tryggingamiðstöðin greiði kostnað vegna málaferla skilanefndar Glitnis á hendur þeim.

Hörður Felix Harðarson, lögmaður þremenninganna í málinu, segir Glitni hafa verið með mjög dýra tryggingu fyrir stjórnendur bankans hjá TM. Nú sé deilt um gildi þessarar stjórnendatryggingar frá þeim tíma sem þremenningarnir voru í stjórnendastöðum hjá Glitni og hvort þeir eigi rétt til verndar samkvæmt tryggingunni eða ekki.

„Þeir gera kröfu um greiðslu útlagðs kostnaðar samkvæmt skilmálum þeirrar tryggingar,“ segir Hörður. Hann kveður um að ræða kostnað sem Lárus, Þorsteinn og Jón hafi af því að verjast kröfum sem hafi verið settar fram gagnvart þeim vegna starfa þeirra hjá Glitni. Til að mynda vegna málsóknar skilanefndar bankans á hendur þeim í New York.

Hörður segir tilgang slíkra stjórnendatrygginga beinlínis að ná til málsókna á hendur stjórnendum vegna starfa fyrir viðkomandi félag. „Þeim er meðal annars ætlað að koma í veg fyrir að stjórnendur fyrirtækja, sem geta alltaf lent í því að það sé beint einhverjum kröfum að þeim vegna starfa þeirra fyrir viðkomandi fyrirtæki, verði jafnvel persónulega gjaldþrota við að þurfa að verjast slíkum kröfum,“ útskýrir hann.

Þá segir Hörður engar upphæðir nefndar í málinu. „Þarna er ekki verið að leysa úr því hvort eitthvað saknæmt hafi átt sér stað heldur prinsippið hvort þeir eigi rétt á að fá þennan kostnað greiddan á þessu stigi eða ekki,“ segir Hörður, sem hins vegar kveður ljóst að hagsmunir séu miklir. „Ég held að það gefi til að mynda auga leið að málsvörn í Bandaríkjunum er óheyrilega dýr.“

Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, segir félagið ekki vilja tjá sig um efnisatriði málsins í fjölmiðlum á meðan það sé rekið fyrir dómstólum.

„Tryggingamiðstöðin getur staðfest að framangreindir aðilar hafa gert kröfu um greiðslu málsvarnarlauna úr stjórnendatryggingum Glitnis-banka hjá félaginu vegna málshöfðunar skilanefndar bankans á hendur þeim. Öllum slíkum kröfum hefur verið hafnað af félaginu,“ er það eina sem Sigurður segir um málið á þessu stigi.- gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×