Viðskipti innlent

Actavis í 32 milljarða pólskri einakvæðingu

Guðbjörg Edda Eggertsdóttir
Actavis hefur augastað á pólsku ríkislyfjafyrirtæki.Fréttablaðið/Valli
Guðbjörg Edda Eggertsdóttir Actavis hefur augastað á pólsku ríkislyfjafyrirtæki.Fréttablaðið/Valli
Actavis er á meðal fjögurra lyfjafyrirtækja sem valin hafa verið til að taka þátt í einkavæðingu pólska ríkislyfjafyrirtækisins Polfa Warszawa. Áætlað kaupverð er tvö hundruð milljónir evra, 32 milljarðar íslenskra króna.

Einkavæðing pólskra stjórnvalda hefur staðið yfir um nokkurra ára skeið en áætlanir dregist. Stjórnvöld ytra áætla nú að selja 740 ríkisfyrirtæki á þessu ári og er Polfa Warszawa eitt af ellefu ríkisfyrirtækjum í lyfjageiranum sem átti að selja árið 2009.

„Þetta yrði mjög góð sameining," segir Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, forstjóri Actavis hér á landi. Polfa Warszawa framleiðir um 150 samheitalyf, þar af tvö sömu gerðar og Actavis selur í Póllandi.

Polfa Warszawa hefur markað sér sess innan heilbrigðisgeirans í Póllandi og er sterkt í framleiðslu á lykjum, lyfjum í svokölluðum ampúlum. Starfsmenn eru 1.300 talsins og vinna þeir í þremur verksmiðjum í Póllandi.

Guðbjörg segir tilboðsferlið er liður í áætlunum Actavis að kaupa lyfjafyrirtæki í Austur-Evrópu fyrir fjögur til fimm hundruð milljónir evra, eins og Claudio Albrecht, forstjóri Actavis, boðaði í síðasta mánuði. Áreiðanleikakönnun stendur yfir og verða tilboð í Polfa Warszawa lögð fram um miðjan apríl.

Ef af þessu verður er um að ræða fyrstu fyrirtækjakaup Actavis frá því fyrir hrunið haustið 2008.

- jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×